Coogan erfir hlutverk Seymours Hoffmans

Philip Seymor Hoffman var framúrskarandi leikari sem lést í febrúar …
Philip Seymor Hoffman var framúrskarandi leikari sem lést í febrúar á þessu ári úr of stórum skammti eiturlyfja. Hér sést hann með hin eftirsóttu Óskarsverðlaun sem hann vann fyrir leik sinn. AFP

Leikarinn Steve Coogan hefur verið fenginn til að taka við hlutverki Philips Seymours Hoffmans í sjónvarpsseríunni Happyish, eins og fram kemur á vef BBC. Tökur þáttanna áttu að hefjast um svipað leyti og Hoffman lést af of stórum skammti eiturlyfja í febrúar.

Búið var að taka upp prufuþátt þar sem Hoffman lék á móti leikaranum Rys Ifans og grínistanum Louis CK en ljóst er að taka þarf upp nýjan prufuþátt þar sem Coogan kemur inn í stað Hoffmans. Enn er óvíst hvort meðleikarar Coogans munu endurtaka leik sinn í nýrri útgáfu prufuþáttarins.

Höfundur þáttanna, Shalom Auslander, segir Coogan búa yfir einstökum hæfileikum sem passi vel fyrir hlutverk hans í þáttunum en þar leikur hann Thom Payne sem er Breti en býr í New York. Líf hans raskast svo verulega þegar hann fær nýjan yfirmann sem er mun yngri en hann.

Þegar Hoffman lést minntist Coogan hans opinberlega og sagði: „Hann var gríðarlega hæfileikaríkur leikari sem ég leit mjög upp til. Hann var fyrirmynd okkar hinna og var sannur listamaður,“ og bætti svo við að hann yrði í hávegum hafður hjá leikurum um ókomna tíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert