Syrgði sambandið í viku á KFC

Hin kínverska Tan Shen vissi nákvæmlega hvað hún þurfti til að komast yfir ástarsorg. Eftir að kærasti hennar sleit sambandinu gekk hún inn á KFC og kom ekki aftur út fyrr en eftir viku.

„Ég gekk um alveg miður mín og ákvað að stoppa á KFC á lestarstöðinni. Ég hafði ekki hugsað mér að vera þar lengi, mig langaði bara í kjúklinga vængi. En þegar ég var komin inn og byrjuð að borða ákvað ég að ég þyrfti tíma til að hugsa,“ sagði Tan Shen samkvæmt frétt Yahoo.

Hún vildi ekki fara í íbúðina sína þar sem hún var full af minningum um hennar fyrrverandi svo Tan Shen hringdi sig inn veika í vinnuna og kom sér vel fyrir á skyndibitastaðnum.

Jiang Li Lung, starfsmaður KFC, segir engann hafa tekið eftir Tan Shen í fyrstu enda sé staðurinn opinn allan sólarhringinn og fjöldi fólks fer þar í gegn á hverjum degi. Eftir nokkra daga fór starfsfólkið þó að hafa áhyggjur.

„Þegar við spurðum hvort það væri allt í lagi sagði hún að svo væri og að hún þyrfti bara tíma til að hugsa. Svo bað hún um annað box af kjúklingavængjum með extra stórum skammti af frönskum,“ sagði Lung.  Hann segir að ákveðið hafi verið að leyfa henni að vera áfram enda þótt hún hafi verið heldur sérstakur viðskiptavinur.

Shen yfirgaf loks staðinn eftir viku í kjölfar þess að fjölmiðlar hófu að sýna henni áhuga. Shen hætti í vinnunni og yfirgaf borgina til að heimsækja foreldra sína. 

„Ég var að fá ógeð af bragðinu af kjúkling svo það var enginn tilgangur með því að vera þarna lengur,“ sagði Shen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert