Vilja að Ástralía „geri meira“

Tony Abbott, forsætisráðherra Ástralíu
Tony Abbott, forsætisráðherra Ástralíu AFP

Bandaríkin og Bretland hafa biðlað til Ástralíu um að „gera meira“ í baráttunni gegn ebólu í Vestur-Afríku. Þetta sagði Tony Abbott, forsætisráðherra Ástralíu, í dag. Abbott sagði þingmönnum að hann hefði rætt um útbreiðslu ebólu í símtali við Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, í gær. 

Stjórnarandstaðan í Ástralíu hefur sakað ríkisstjórnina um að hafa ekki gert nóg til að hjálpa til í baráttu gegn veirunni sem nú geisar harðast í Vestur-Afríku. Haft hefur verið eftir ríkisstjórninni að Ástralir verði ekki sendir til Afríku fyrr en hægt er að tryggja að þeir verði öruggir. 

Veiran herjar nú aðallega á Síerra Leóne, Líberíu og Gíneu. Yfir 9.900 manns hafa sýkst af veirunni og yfir 4.800 hafa látist. 

Bill Shorten, þingmaður í stjórnarandstöðu í Ástralíu, sagði í síðustu viku að ríkisstjórnin yrði að taka þátt í samvinnu með alþjóðlegum yfirvöldum, í stað þess að bíða eftir að veiran breiðist enn frekar út.

„Ástralía getur ekki gengið í svefni í gegnum þessa erfiðleikatíma,“ sagði Shorten. „Ég held að engum finnist ríkisstjórnin hafa gert nóg.“ Þá ásakaði hann Abbott um það að sýna „skort á forystuhæfni sem er mjög áhættusöm stefna“.

Ástralía hefur nú þegar veitt 15.7 milljónir dollara í baráttuna gegn ebólu, en ríkisstjórnin hefur gefið út að læknar verði ekki sendir til Afríku fyrr en hægt er að tryggja að þeir verði öruggir. Þá hefur ríkisstjórnin sagt að Ástralía sé of langt frá Afríku til að hægt sé að flytja sjúklinga þangað, svo þriðja ríki yrði að veita áströlskum sjúklingi læknishjálp.

Ebóla hefur dregið hátt í 5.000 manns til dauða.
Ebóla hefur dregið hátt í 5.000 manns til dauða. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert