Yfir 3.000 með falsaða námsskrá

The University of North Carolina at Chapel Hill
The University of North Carolina at Chapel Hill Wikipedia

Yfir þrjú þúsund nemendur við Háskólann í Norður Karólínu við Chapel Hill skráðu sig á námskeið sem aldrei voru kennd til þess eins að vera gjaldgeng í íþróttalið skólans. 

Í skýrslu sem Kenneth Wainstein, fyrrum ríkissaksóknari, hefur birt kemur í ljós að á síðustu 18 árum hafa að minnsta kosti 3.100 nemendur, aðallega íþróttafólk, verið með falsaða námsskrá sem sýnir háar einkunnir nemenda í námskeiðum sem ekki eru til. 

Þurftu ekki að mæta í tíma

Gert er ráð fyrir því að allir íþróttamenn í liðum háskólanna klári ákveðin námskeið svo þeir geti unnið sér inn fyrir gráðu, og eigi rétt á að spila með liði skólans. Nemendurnir í Norður Karólínu gátu þó sleppt því að mæta í tíma, taka glósur og hitta kennara, en þeim voru samt sem áður gefnar háar einkunnir. Tilgangurinn var sá að passa upp á það að íþróttafólkið væri með nógu háar einkunnir til að vera gjaldgengt í lið skólans.

Deunta Williams, fyrrum nemandi við skólann sem tók þátt í námskeiðunum, sagði námsráðgjafa hafa mælt með þeim. „Þú gætir slakað á,“ sagði ráðgjafinn við mig. „Ef þú þarft A eða B þá hefurðu þessi námskeið.“

Átti að hjálpa þeim sem voru ekki bestir

Samkvæmt skýrslu Wainstein er deild afrískra og afró-amerískra fræða ábyrg fyrir námskeiðunum. Samkvæmt skýrslunni áttu námskeiðin að hjálpa þeim sem ekki voru „bestir og klárastir.“

Í sameiginlegri yfirlýsingu frá skólanum og íþróttasambandi háskóla í Bandaríkjunum (NCAA) segir: „Upplýsingarnar sem koma fram í skýrslu Wainsteins verða teknar til athugunar og þeim framfylgt af starfsfólki undir sömu stöðlum og öll brot sem framin eru innan NCAA.

Carol Folt, forsvarsmaður skólans, sagði fjóra starfsmenn hafa verið rekna og fimm til viðbótar hafa fengið viðvörun.

Frétt The Telegraph um málið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert