Ebólan komin til New York

Bellevue sjúkrahúsið þar sem Craig Spencer er í einangrun.
Bellevue sjúkrahúsið þar sem Craig Spencer er í einangrun. AFP

Læknir sem nýlega sneri aftur til New York eftir að hafa starfað með ebólusjúklingum í Gíneu greindist smitaður af ebólu í gær. Þetta er fyrsta staðfesta ebólusmitið í borginni.

Læknirinn, Craig Spencer, er 33 ára að aldri. Hann er nú í einangrun á sjúkrahúsi í New York en hann er sá fjórði sem er greindur með ebólu í Bandaríkjunum en sá fyrsti utan Texas.

Spencer kom til Bandaríkjanna 17. október sl. og lenti á JFK-flugvelli í New York eftir flug í gegnum Evrópu. Hann starfaði með samtökunum Læknum án landamæra í Vestur-Afríku. 

Borgarstjóri New York, Bill de Blasio, greindi frá þessu á blaðamannafundi í gærkvöldi á Bellevue-sjúkrahúsinu.

Í frétt AFP kemur fram að samkvæmt linkedin-síðu Spencers hefur hann í rúm þrjú ár starfað á Columbia-háskólasjúkrahúsinu í New York.

Samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum fylgdist hann grannt með líkamshita sínum og mældi sig tvisvar á dag. Hann hefur einnig verið í sjálfskipaðri einangrun að mestu en fékk fyrst einkenni á fimmtudag, í gær. Daginn áður hafði hann hins vegar farið í tvær neðanjarðarlestir til Brooklyn þar sem hann fór í keilu. Keiluhöllinni hefur nú verið lokað tímabundið í varúðarskyni. Segja heilbrigðisyfirvöld, sem hafa farið yfir ferðir læknisins frá því hann kom til landsins, að engin ástæða sé fyrir hinar 8,4 milljónir íbúa New York-borgar að óttast. 

Unnusta hans og tveir vinir hans, en hann hefur verið í miklu sambandi við þau þrjú frá því hann kom til landsins, eru öll við góða heilsu en fylgst er grannt með þeim.

Borgarstjórinn í New York, Bill DeBlasio.
Borgarstjórinn í New York, Bill DeBlasio. AFP
Inngangur Bellevue sjúkrahússins í New York þar sem Craig Spencer …
Inngangur Bellevue sjúkrahússins í New York þar sem Craig Spencer er í einangrun. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert