Lögreglan greiðir fórnarlambi njósna bætur

Scotland Yard
Scotland Yard Wikipedia

Breska lögreglan þarf að greiða konu 425 þúsund pund, 86 milljónir króna, í bætur en hún fékk taugaáfall eftir að hafa uppgötvað að barnsfaðir hennar hafði unnið með leynd á vegum lögreglunnar að því að fylgjast með starfi hennar með aðgerðasinnum.

Samkvæmt frétt Guardian er þetta í fyrsta skipti sem breska lögreglan samþykkir að greiða skaðabætur í máli sem þessu en konan höfðaði mál gegn lögreglunni þegar hún komst að hinu sanna 24 árum eftir fæðingu sonar þeirra.

Konan hefur frá því að hún las í dagblaði árið 2012 hver barnsfaðir hennar væri þurft á sálfræðimeðferð að halda eftir að hafa fengið alvarlegt taugaáfall auk þess sem hún hefur reynt að fremja sjálfsvíg.

Lögreglumaðurinn vann á laun við að fylgjast með konunni og fleiri aðgerðasinnum en hann yfirgaf konuna og son þeirra er drengurinn var tveggja ára gamall.

Konan, sem hefur óskað eftir því að vera ekki nafngreind, er kölluð Jacqui í Guardian. Hún segir að lögreglan hafi ekki viðurkennt hvernig staðið var að slíkum málum innan lögreglunnar en tvö ár eru liðin frá því að upplýst var að barnsfaðir hennar, Bob Lambert, var einn þeirra lögreglumanna sem fylgdust með leynd með aðgerðasinnum. Lambert hefur hins vegar sjálfur stigið fram og viðurkennt sinn hlut.

Líður eins og ríkið hafi nauðgað henni

Jacqui segir engan vafa leika á um að Lambert er raunverulegur faðir drengsins. Hún segir að afstaða lögreglunnar í málinu hafi gert þetta allt miklu erfiðara en það hefði þurft að vera. Það hafi verið eins og lögreglan hafi sparkað í hana stöðugt síðustu tvö árin. Sér líði eins og hún hafi verið skilin eftir úti á ballarhafi þar sem hún hafi átt að drukkna án nokkurrar hjálpar. Sér líði eins og ríkið hafi nauðgað henni.

Hún segist vonast til þess að fara að fá einhver svör en Theresa May innanríkisráðherra setti af stað opinbera rannsókn á málinu eftir að Guardian upplýsti um fjölda slíkra mála.

Bann er við því að lögreglumenn sem starfa með leynd eigi í ástarsambandi við þá sem þeir fylgjast með en samkvæmt Guardian er það mjög algengt og standa samböndin oft yfir árum saman. Lögregla rannsakar nú ásakanir frá yfir tíu konum sem segjast hafa fengið taugaáfall eftir að hafa uppgtövað að unnustar þeirra fyrrverandi hafi njósnað um þær á laun.

Ekki fyrsta barn heldur þriðja

Jacqui, sem var 22 ára á þessum tíma, hefur lýst því hversu fljótt hún hafi orðið hrifin af Robinson (Lambert) sem var afar hrífandi. Hún segir að hann hafi verið hennar fyrsta ást. Sonur þeirra fæddist ári síðar. Hún starfaði með aðgerðahreyfingum á þessum tíma og það hafi enginn velt fyrir sér bakgrunni Robinsons enda var hann barnsfaðir hennar.

Hún vissi ekki betur en að sonur þeirra væri hans fyrsta barn. En það sem hún komst að 24 árum síðar var að Lambert ætti aðra fjölskyldu og hann átti tvö ung börn á þessum tíma með eiginkonu sinni. 

Jacqui lýsir því hvernig það er að uppgötva að njósnari sem fékk greitt fyrir það hjá lögreglunni hafi fylgst með henni. Svo grannt hafi hann fylgst með að hann var jafnvel viðstaddur fæðingu barns þeirra þannig að hann hafi fylgst með henni innan sem utan.

Hún segist velta fyrir sér hvernig skýrslu hann hafi skilað eftir að hafa verið viðstaddur fæðingu barns þeirra en fæðingin tók fjórtán klukkustundir.

Þegar Jacqui komst að því að hún væri þunguð var hún ákveðin í að eignast barnið og hann gerði ekkert til þess að reyna að hvetja hana til að fara í fóstureyðingu.

Í fyrstu var hann afar umhyggjusamur faðir en þegar sonur þeirra var tveggja ára hvarf hann úr lífi þeirra en að eigin sögn vegna þess að lögreglan var á eftir honum vegna þátttöku í aðgerðum dýraverndunarsinna. Hið sanna var að hann sneri aftur til Scotland Yard þar sem hann fékk stöðuhækkun innan lögreglunnar og stýrði starfi lögreglumanna sem störfuðu á laun.

Það var síðan í október 2011 sem hópur aðgerðasinna kom upp um Lambert sem á þeim tíma var hættur hjá lögreglunni. Þegar upplýst var um hans fyrir störf sendi Lambert frá sér yfirlýsingu þar sem hann staðfesti orð aðgerðasinnanna.

Það var hins vegar ekki fyrr en í júní 2012 sem Jacqui komst að þessu þegar hún las um leynilega starfsemi lögreglunnar í dagblaði. Hún segir að Lambert og sonur þeirra séu nú í góðu sambandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert