„Þetta er ekki að fara gerast“

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, brást reiður við fjárkröfu Evrópusambandsins. Hann …
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, brást reiður við fjárkröfu Evrópusambandsins. Hann segir að svona eigi ESB ekki að haga sér. AFP

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, segir að það komi ekki til greina að Bretland greiði Evrópusambandinu viðbótargreiðslu upp á 1,7 milljarða evra, sem samsvarar um 330 milljörðum króna, eftir rúman mánuð.

„Ef fólk heldur að ég ætli að greiða þennan reikning þann 1. desember, þá á það von á öðru,“ sagði Cameron, sem er staddur í Brussel, höfuðborg Belgíu og höfuðstað ESB. „Þetta er ekki að fara gerast,“ bætti hann við, en Cameron hefur brugðist reiðilega við þessari kröfu. Fjallað er um þetta á vef BBC.

Greint var frá því fyrr í dag, að Bretum væri gert að greiða hærri upphæð til ESB þar sem staða efna­hags­mála er betri en áður var talið. Þetta er niðurstaða ESB eft­ir að nýir út­reikn­ing­ar voru birt­ir sem sýna hvað hvert aðild­ar­ríki á að greiða en greiðslan bygg­ist á verg­um þjóðar­tekj­um. Þetta þýðir að Bret­land þarf að greiða um 20% ofan á þá 8,6 millj­arða punda sem breska ríkið greiðir ár­lega.

Cameron segir að þetta sé algjörlega óviðunandi og svona eigi ESB ekki að haga sér. Hann spyr og krefst svara hvernig sambandið komst að þessari niðurstöðu. 

Fjármálaráðherrar ESB-ríkjanna hafa orðið við kröfu Breta um neyðarviðræður vegna málsins. 

Cameron segir að hann sé reiður og að meirihluti bresks almennings muni ekki sætta sig við að þurfa að greiða svo háa fjárhæð. 

„Við munum ekki allt í einu grípa ávísanaheftið og skrifa ávísun upp á tvo milljarða evra. Það mun ekki gerast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert