Blair: „Cameron mun vinna næstu kosningar“

Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands.
Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands. AFP

Breska dagblaðið The Telegraph greinir frá því í dag að Tony Blair, fyrrum forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Verkamannaflokksins, telur að David Cameron, formaður Íhaldsflokksins, verði áfram forsætisráðherra eftir þingkosningarnar á næsta ári. 

Blair, sem var forsætisráðherra á árunum 1997-2007, á að hafa sagt við vini sína að hann telji Ed Miliband, núverandi leiðtoga Verkamannaflokksins, ekki hafa náð að sýna fram á að flokkurinn sé hæfur til þess að stjórna landinu. 

Dagblaðið ræddi við náinn vin Blairs sem var viðstaddur samtal Blairs við nána pólitíska vini sína. Blair sagðist styðja Miliband en hann telur hann eiga langt í land með að vinna næstu kosningar. 

Samkvæmt nýjustu skoðanakönnun blaðsins er lítill munur á fylgi Íhaldsflokksins og Verkamannaflokksins. Verkamannaflokkurinn mælist með 33% fylgi en Íhaldsflokkurinn 32%. Fyrir nokkrum mánuðum var munurinn meiri, en Íhaldsflokkurin hefur saxað á forystu Verkamannaflokksins á undanförnum mánuðum. 

Sjá frétt The Telegraph

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert