Átti við andleg veikindi að stríða

Blóm hafa verið lögð við stríðsminnisvarðann í Ottawa, þar sem …
Blóm hafa verið lögð við stríðsminnisvarðann í Ottawa, þar sem Zehaf-Bibeau skaut kanadískan hermann til bana í síðustu viku. AFP

Móðir Michaels Zehaf-Bibeaus segir að sonur sinn hafi verið vitfirrtur og að hann hafi viljað deyja. Lögreglan felldi Bibeau á miðvikudag í kanadíska þinghúsinu í Ottawa eftir að Bibeau hafði skotið hermann til bana.

Susan Bibeau skrifaði langt bréf sem birtist í sunnudagsblaði National Post í Kanada í dag. Hún sagði að sonur sinn hefði viljað ferðast til Sádi-Arabíu til að fræðast um íslam og Kóraninn. Það væri ekki rétt að henn hefði viljað ganga til liðs við íslamska öfgamenn eins og lögreglan hefði sagt. 

Hún sagði að syni sínum hefði fundist hann fastur í gildru þegar umsókn hans um vegabréf var ítrekað hafnað. Zehaf-Bibeau hefði þar af leiðandi ekki getað tekið næsta skref.

Geðsjúkdómur þungamiðja harmleiksins

„Hann var vitfirrtur, fannst hann vera í gildru og því var dauðinn eina leiðin út,“ skrifaði hún. 

Hún lagði á það áherslu að hann hefði glímt við mikla sálræna erfiðleika og að hann hefði ekki verið hryðjuverkamaður. Það sem hann gerði hefði verið í örvæntingu en ekki vegna tengsla við hryðjuverkasamtök.

„Hvað mig varðar, þá er geðsjúkdómur þungamiðja þessa harmleiks,“ skrifaði hún. 

Hún fordæmdi hins vegar ódæðisverkið. 

„Sem manneskja og móðir þá þykir mér hrollvekjandi það sem sonur minn gerði, mér verður flökurt. Ég mun aldrei skilja hvað fær einstakling til að grípa til slíkra ofbeldisverka,“ skrifaði Bibeau. 

Hún bætti því við að verknaður sonar síns hefði verið svo skelfilegur að hún hefði grafið sorgina „djúpt inni í sjálfri mér“.

Var í mikilli neyslu

Kanadíski lögreglustjórinn Mike Cabana hefur viðurkennt að fyrri yfirlýsingar lögreglunnar um að Zehaf-Bibeau hafi ætlað að ferðast til Sýrlands hafi verið rangar.

Susan Bibeau segir son sinn hafa glímt við eiturlyfjafíkn. „Ég veit ekki hvort hann náði að sigrast á henni en þar sem hann var í svo mikilli neyslu hefði það getað skilið eftir varanleg ör og leitt til andlegra veikinda hans.“

Hún bað kanadísku þjóðina afsökunar og sérstaklega fjölskyldu hermannsins sem lést, Nathans Cirillos.

„Ég mun ávallt velta þeirri spurningu fyrir mér hvort ég hefði getað gert eitthvað annað, gert eitthvað meira til að hjálpa,“ skrifaði hún.

„Tómleikinn og sársaukinn er yfirþyrmandi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert