Notaðar í árásum Boko Haram

Nígerísku hryðjuverkasamtökin Boko Haram nota ungar konur og stúlkubörn sem þau hafa rænt sem skildi í árásum sínum samkvæmt nýrri skýrslu um starfsemi þeirra í dag.

Það eru mannréttindasamtökin Human Rights Watch sem unnu skýrsluna og byggist hún á vitnisburði tuga fyrrverandi gísla þeirra. Lýsa gíslarnir fyrrverandi andlegu og líkamlegu ofbeldi af hálfu liðsmanna samtakanna.

Boko Haram-samtökin rændu um 30 börnum, þar á meðal stúlkum allt niður í 11 ára gömlum, í Borno-héraði um helgina. Fyrir viku var um 40 konum og stúlkum rænt í nágrannaríkinu, Adamawa.

Miklar efasemdir eru nú um meint vopnahlé sem stjórnvöld segjast hafa gert við Boko Haram og um leið að samkomulag hafi verið gert um lausn 219 skólastúlkna sem samtökin rændu í apríl.

Í skýrslunni er meðal annars haft eftir 19 ára gamalli stúlku sem var haldið fanginni í þrjá mánuði hjá Boko Haram að hún hafi verið neydd til þess að taka þátt í árásum þeirra.

Hún segir að sér hafi verið gert að halda á skotfærum og liggja í grasinu á meðan bardagarnir stóðu. Skæruliðarnir hafi komið til hennar eftir skotfærum og stóðu bardagarnir daglangt.

„Þegar sérsveitir komu á staðinn og hófu skothríð féll ég til jarðar af hræðslu. Uppreisnarmennirnir drógu mig eftir jörðinni á flótta sínum til baka í búðirnar,“ segir hún. 

Í annarri árás var hún látin fá hníf og gert að drepa einn þorpsbúa af fimm sem voru teknir til fanga af Boko Haram og taka átti af lífi. „Ég hristist og skalf af skelfingu og gat ekki gert það. Eiginkona leiðtoga búðanna tók hnífinn og drap hann,“ segir hún.

Tekin var skýrsla af 30 konum og stúlkum á eins árs tímabili, þar á meðal 12 af þeim 57 sem tókst að flýja þegar skæruliðar réðust til atlögu í skóla þeirra í Chibok í Borno-héraði. Enn eru 219 stúlkur úr skólanum í haldi Boko Haram.

Konunum var rænt af heimilum sínum í þorpum og af ökrum í nágrenninu. Þær lýsa lífinu í átta búðum í norðausturhluta Nígeríu. 

Human Rights Watch-samtökin segja að yfir 500 konum og stúlkum hafi verið rænt af Boko Haram frá árinu 2009 á þessum slóðum.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert