Ég hata óréttlæti

Justine Ijeomah berst gegn pyntingum lögreglu í Nígeríu.
Justine Ijeomah berst gegn pyntingum lögreglu í Nígeríu. Þórður Arnar Þórðarson

Handahófskennt ofbeldi og pyntingar eru viðvarandi í Nígeríu og bókstafstrúarsamtökin Boko Haram eru ekki eini sökudólgurinn. Í nýrri skýrslu Amnesty International kemur fram að her og lögregla pyntar karla, konur og börn allt niður í tólf ára aldur án þess að vera dregin til ábyrgðar. Justine Ijeomah hefur skorið upp herör gegn pyntingum í Nígeríu og leggur sig óhikað í hættu. „Ég hata óréttlæti,“ segir hann.

Ijeomah er staddur hér á landi á vegum mannréttindasamtakanna Amnesty International. Hann er nýkominn frá Brussel, næsti viðkomustaður er Noregur og síðan heldur hann til Bretlands.

„Oftsinnis hef ég verið beittur barsmíðum og pyntingum,“ segir hann. „Ég hef verið handtekinn 25 sinnum, oft fyrir að skerast í leikinn fyrir hönd fólks, sem hefur verið sett í varðhald og pyntað.“

Ijeomah stofnaði mannréttindasamtökin HURSDEF í heimalandi sínu og hefur barist fyrir mannréttindum. Í heimaborg sinni, Port Harcourt, gengur hann undir viðurnefninu „herra mannréttindi“ - Mr. Human Rights. Samtökin reyna að hjálpa þeim, sem hafa verið fangelsaðir og pyntaðir, finna líkamsleifar þeirra, sem hafa látið lífið í haldi og krefjast þess að gerendurnir verði dregnir til ábyrgðar.

Spillingin liggur djúpt í kerfinu

„Þetta setur mig og samstarfsmenn mína í mikla hættu,“ segir hann. „Spillingin liggur djúpt í kerfinu í landi mínu og það hefur skelfileg áhrif á öryggi. Þetta á sérstaklega við um lögregluna, sem oft handtekur fólk af handahófi. Iðulega er ástæðan fjárkúgun. Fjölskyldur eru þvingaðar til að safna peningum til að fá ættingja lausa. Samtök mín mæla ekki með því að borga. Við krefjumst þess að fólk sé látið laust án endurgjalds lögum samkvæmt.“

Lögreglan lítur því svo á að Ijeomah og samtök hans séu að koma í veg fyrir að hún kúgi fé út úr fórnarlömbum sínum. „Því er reynt að hræða okkur,“ segir hann. „Ég og félagar mínir erum handteknir bara til að fá okkur til að draga okkur í hlé.“

Frásagnir Ijeomahs eru sláandi. Hann lýsir því hvernig fólk er handtekið fyrir engar sakir, pyntað með hryllilegum hætti og þvingað til að játa á sig fjarstæðukenndustu hluti.

Hinir fátæku varnarlausir

Fórnarlömbin eru iðulega fátæklingar, þeir sem minnst mega sín og eiga sér enga málsvara. Ofbeldið er ekki pólitískt, en það er kerfisbundið. Stjórnmálamennirnir beita sér hins vegar ekki til að stoppa óöldina. „Hinir kjörnu fulltrúar hafa aðeins áhuga á því, sem snertir hagsmuni þeirra,“ segir hann. „Mörg af fórnarlömbunum, sem lögreglan handtekur og pyntar, eru hinn fátæki almúgi, ekki hinir ríku. Það er ekki hægt að pynta hina ríku vegna þess að þeir hafa bolmagn til að verjast og ráða bestu lögfræðingana. Hinir fátæku hafa það ekki, sérstaklega þeir, sem búa á götunni, þar á meðal börn.“

Ijeomah rekur sögu Emekas Eze, barns, sem bjó á götunni. „Hann var handtekinn og pyntaður hrottalega. Kona ein hafði boðið honum hæli yfir daginn. Hún lét hann ekki fá peninga fyrir mat og hann var svo svangur að hann tók símann hennar, seldi hann og keypti mat fyrir peningana. Þegar konan kom aftur var síminn horfinn og lögreglan handtók hann. Barnið var pyntað af hörku og var alsett marblettum.“

Ijeomah fékk veður af málinu og fór á lögreglustöðina til að fá hann lausan. Hann átti að koma á stöðina næsta dag en hann var hræddur við að verða pyntaður á ný þannig að hann bað Ijeomah um að koma með sér.

„Ég þurfti að sinna öðru máli fyrst,“ sagði hann. „Ég bað þá að leyfa mér að koma með hann, en þeir sögðu nei, byrjuðu að slá mig, afklæddu mig og tóku mig í fangaklefa. Amnesty International beitti þrýstingi og ég var látinn laus, en þeir komu og hæddust að mér. Síðan börðu þeir höfðinu á mér nokkrum sinnum við vegg. Ég var fluttur á spítala og enn glími ég við höfuðverki.“

„Ég drep þig og ekkert mun gerast“

Öðru sinni var Ijeomah að keyra. Lögreglan stoppaði hann og leitaði í bílnum. Þar var taska, sem lögreglumennirnir leituðu í, en fundu ekkert. Einn þeirra sparkaði í töskuna og Ijeomah spurði hvers vegna. Þá tók lögreglumaður hríðskotabyssu sína, AK47, tók af henni öryggið og setti hlaupið á bringu hans.

„Hann sagði að ef ég opnaði munninn mundi hann drepa mig,“ sagði hann. „Þetta var fyrir framan fólkið í bílnum. Fólk var líka farið að drífa að og þekkti mig. „Mr. Human Rights,“ hrópaði það. „Af hverju ætlið þið að drepa hann? Hann gerði ekki neitt?“ Lögreglan áttaði sig þá á því að ef þeir dræpu mig yrðu vitni. Hann löðrungaði mig tvisvar, sló mig með byssunni og fór með mig í fangelsi. Seinna var mér sleppt.“

Ijeomah segir að þeir hefðu hæglega getað drepið hann ef vitni hefðu ekki verið til staðar. „Ég drep þig og ekkert mun gerast,“ segir hann. „Svona tala þeir í Nígeríu. Umfang morða án dóms og laga af hálfu lögreglunnar er hryllilegt.“ Hann heldur á skýrslu Amnesty International frá 2009, Killing at Will, um ástandið og bætir við að hann hafi verið 75% af málunum, sem þar eru rakin. Morðum lögreglu eru einnig gerð skil í skýrslunni No Justice for the Dead þar sem þrýst er á að lögreglu verði refsað fyrir glæpi sína og ættingjar fái jarðneskar leifar þeirra, sem hafa verið myrtir, þannig að þeir fái viðeigandi útför. Ijeomah var með öll málin, sem þar koma fyrir.

„Þetta refsileysi er skelfilegt,“ segir hann.

„Engin réttlæting fyrir pyntingum“

Ijeomah segir að í norðurhéruðunum þar sem Boko Haram hefur aðsetur sé ofbeldi á hendur blásaklausu fólki réttlætt með því að stimpla fórnarlömbin hryðjverkamenn.

„Það er engin réttlæting fyrir pyntingum,“ segir hann.

Ijeomah rekur mál Mosesar Aktatugba, sem var handtekinn 16 ára gamall. „Hann var að koma frá frænku sinni. Lögreglubíll stoppaði og hann var beðinn um að setjast inn í hann. Hann spurði hvers vegna, hvað hann hefði gert. Þeir sögðu að ef hann hlýddi ekki yrði hann drepinn og skutu hann í vinstri handlegginn. Þeir fóru með hann lögregluskála, stoppuðu blæðinguna. Hann var beðinn um að bera kennsl á lík af manni, sem þeir höfðu skotið, en hann sagðist ekki þekkja manninn. Þá var hann barinn harkalega. Hann var fluttur á aðra lögreglustöð þar sem hann var yfirheyrður um hvort hann hefði tekið þátt í ráni. Hann kvaðst ekkert vita um málið. Þá var hann hengdur upp á höndum og fótum. Síðan rifu þeir neglurnar af fingrunum á honum og gerðu það hægt til að sársaukinn yrði sem mestur. Eftir það sagði hann já við öllum spurningum.

Eftir þetta var hann tekinn niður til að ganga frá skýrslu. Aftur var hann spurður um líkið og hann sagðist ekki vita af hverjum það væri. Þá var hann tekinn og hengdur upp aftur, laminn og nú voru táneglurnar rifnar af. Eftir það játaði hann allt sem þeir vildu, þar á meðal að hafa myrt hinn látna, sem hann hafði aldrei séð áður.

Dauðadómur eftir átta ára drátt

Þessar játningar voru notaðar til að draga hann fyrir dóm og sækja til saka. Meðan á réttarhöldunum stóð sagði lögmaður hans að hann hefði verið pyntaður til að játa. Lögregluþjóninum, sem tók skýrsluna, var gert að koma fyrir réttinn og gera grein fyrir málinu. Hann neitaði að mæta, málið dróst í átta ár, þar til hann var dæmdur til dauða. Nú bíður hann þessa að vera hengdur.“

Látinn borða storknað blóð sitt

Hann segir einnig frá ungum manni, sem var handtekinn fyrir að ræna eiginmanni lögregluþjóns. „Ungi maðurinn sagðist ekkert vita um málið,“ segir hann. „Hann var pyntaður með hræðilegum hætti. Þeir notuðu flatt blaðið á sveðju til að strjúka eftir bakinu á honum og skinnið flettist af. Hver lögregluþjónn var með sinn hníf. Gólfið var á floti í blóði. Oft deyja menn við svona pyntingar og það heyrist aldrei af þeim meir, en þessi drengur féll í yfirlið þannig að þeir losuðu hann og þegar þeir komu aftur spörkuðu þeir í hann og sáu að hann var á lífi. Þeir létu hann standa upp. Blóðið hafði storknað saman við sandinn á gólfinu. Þeir tóku kögglana upp og létu hann borða þá, borða allt blóðið blandað sandi.“

Ijeomah hefur verið með þátt í útvarpi, sem heitir Þekktu rétt þinn. Hann nefndi þetta mál í þættinum. Lögreglumaðurinn, sem er yfir mannránadeildinni, Jovinus Iwuh, hafði samband við hann. Málið hafði gerst í hans deild. „Ég sagði honum að sýna mér fórnarlambið til að sýna fram á að ég væri að ljúga,“ segir hann. „Málin eru fleiri og ég hef verið pyntaður á þessari stöð. Eitt sinn var sjálfboðaliði hjá mér handtekinn. Ég spurði hvers vegna, hann hefði ekkert gert af sér. Þegar hann var látinn laus, spurði ég hvers vegna hann hefði verið handtekinn. Yfirmaðurinn spurði hvort hann mætti ekki handtaka fólk þegar honum sýndist. Ég sagði honum að svo væri ekki, hann mætti bara handtaka fólk, sem hefði framið glæpi, ekki bara til að handtaka vegna þess að hann væri lögreglumaður.“

Hann stóð upp, tók í eyrað á Ijeomah og dró hann fram. Þegar hinir lögreglumennirnir sáu það þyrptust þeir að honum og gengu í skrokk á honum á meðan hann var dreginn að hliðinu fyrir utan stöðina. Jovinus tók sjálfur þátt í þessu.

„Veit að þetta er hættulegt“

Hjá samtökum Ijeomahs starfa átta manns og hann hafa um 200 sjálfboðaliða á sínum snærum. 70% þeirra eru fórnalömb pyntinga. Samtökin hafa verið sett á svartan lista, segir hann og bætir við að óttinn sé svo mikill að fáir þori að leggja til atlögu við lögregluna. Hann tekur hins vegar áhættuna. Samtökin HURSDEF njóta stuðnings Amnesty International. Ijeomah hlaut í fyrra viðurkenningu sænskra yfirvalda, sem kennd eru við Per Anger. fyrir baráttu sína í þágu mannréttinda. Anger var samstarfsmaður Raouls Wallenbergs við að hjálpa gyðingum í síðari heimsstyrjöld.

Pyntingar eru bannaðar í stjórnarskrá Nígeríu, en þær eru ekki bannaðar samkvæmt lögum. Lagafrumvarp um bann við pyntingum hefur dankast í þinginu í tvö ár. Ijeomah telur að nú sé komið nóg.

„Ég byrjaði á þessu út af sannfæringu minni,“ segir hann. „Ég hef verið pyntaður og lifað af. Ég hata óréttlæti og þess vegna byrjaði ég. Ég veit að þetta er hættulegt, en það er ekki hægt að leyfa því að halda áfram að menn fari sínu fram án refsingar. Ef ég neita að berjast gegn þessu - gegn pyntingunum, ofbeldinu, spillingunni og refsileysinu - verða ófæddu börnin okkar þrælar í húsum feðra sinna. Einhver verður að færa fórnir til að knýja fram breytingar og ég hef sannfæringuna til að gera það.“

Pyntingar eru algengar í Nígeríu. Þessi teikning af lögreglu að …
Pyntingar eru algengar í Nígeríu. Þessi teikning af lögreglu að beita vatnspyntingum birtist með skýrslu Amnesty International. Chijioke Ugwu Clement/Amnesty International
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert