Hollendingar vilja gögn frá Rússum

Frá brotlendingarstað vélar Malaysia Airlines, flugleið MH17, á engi nærri …
Frá brotlendingarstað vélar Malaysia Airlines, flugleið MH17, á engi nærri þorpinu Grabove, í Donetsk héraði. AFP

Rússar verða beðnir um að afhenda gögn sem þeir hafa sagt að séu til staðar um ferðir úkraínskrar orustuþotu, þotu sem þeir segja að hafi flogið nálægt malasísku farþegavélinni MH17 þegar hún var skotin niður þann 17. júlí á þessu ári. 

Hollendingar fara fram á þetta. Þetta kom fram í viðtali Der Spiegel við Fred Westerbeke í gær, en hann er einn þeirra sem rannsakar málið. 298 manns voru um borð í vélinni sem var skotin niður í austurhluta Úkraín og lifði enginn af. Í vélinni voru 193 Hollendingar.

Westerbeke sagði að saksóknarar vildu fá ratsjárgögn þessarar tilteknu flugvélar en Rússar hafa áður sagt að úkraínsk orustuflugvél hafi verið nálægt þegar malasíska vélin var skotin niður.

Úkraínumenn hafa aftur á móti haldið því fram að farþegavélin hafi verið skotin niður af aðskilnaðarsinnum með BUK-flugskeytum sem Rússar útveguðu. Rússar hafa alfarið neitað aðild að málinu. 

Búið er að bera kennsl á 284 þeirra sem voru um borð í vélinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert