Banamaður bin Laden stígur fram

Osama bin Laden
Osama bin Laden Ljósmynd/Wikipedia

Bandaríski sérsveitarmaðurinn sem skaut Osama bin Laden, fyrrverandi leiðtoga al-Qaeda hryðjuverkasamtakanna, til bana, mun á næstunni koma fram undir nafni í sjónvarpsviðtali sem sýnt verður á fréttastöðinni Fox News. Þátturinn verður sýndur í næsta mánuði.

Þátturinn sem nefndur hefur verið „Maðurinn sem drap Osama bin Laden“ verður sýndur í tveimur hlutum dagana 11. og 12. nóvember næstkomandi. Þar mun sérsveitarmaðurinn lýsa aðgerð Bandaríkjahers í smáatriðum og hvert hlutverk hans var þennan örlagaríka dag í maí árið 2011.

Mun maðurinn einnig lýsa þeirri þjálfun sem sérsveitarmenn Bandaríkjahers fara í gegnum áður en þeim er leyft að gegna herþjónustu innan sveitarinnar.

Í auglýsingu Fox News segir m.a. að þátturinn muni veita áhorfendum einstakt tækifæri til að kynna sér atriði aðgerðarinnar sem aldrei hefur verið greint frá opinberlega áður. Þá mun sérsveitarmaðurinn lýsa upplifun sinni þar sem hann stóð andspænis hryðjuverkaleiðtoganum fyrrverandi og síðustu andartökum hans.

Sérsveitarmaðurinn hefur áður komið fram í viðtali, þó ekki undir nafni, og lýsti hann þá því þegar sveit hans fann bin Laden á þriðju hæð húss í Abbottabad í Pakistan. Hélt bin Laden þá um axlir yngstu eiginkonu sinnar og ýtti henni í áttina að sérsveitarmönnunum.

Við hlið hryðjuverkaleiðtogans mun hríðskotariffill, af gerðinni AK-47, hafa staðið.

„Á þessari sekúndu skaut ég hann, tvisvar sinnum í ennið. Bap! Bap! Annað skotið hæfði hann þegar hann var að falla niður. Hann hné niður á gólfið fyrir framan rúmið sitt og þá skaut ég hann aftur á sama stað,“ sagði sérsveitarmaðurinn í viðtalinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert