Barist af hörku við Kobane

Bandarísk sprengjuflugvél af gerðinni B-1B Lancer á flugi yfir Sýrlandi.
Bandarísk sprengjuflugvél af gerðinni B-1B Lancer á flugi yfir Sýrlandi. AFP

Bandarískar orrustuflugvélar héldu loftárásum sínum áfram á vígamenn samtaka ISIS, Ríkis íslam, nærri sýrlenska bænum Kobane í dag. Á sama tíma eru íraskir peshmerga-liðar sagðir undirbúa aðgerðir til að styrkja stöðu hersveita Kúrda við landamærin.

Undanfarna tvo daga hafa bandarískar orrustuflugvélar og sprengjuvélar gert árásir á átta skotmörk nærri bænum Kobane. Meðal skotmarka voru sex bifreiðar, bygging og nokkur vígi liðsmanna Ríkis íslams. Hefur fréttaveita AFP þetta eftir hermálayfirvöldum sem standa að baki og undirbúa loftárásir á skotmörk innan landamæra Íraks og Sýrlands.

Innan landamæra Íraks hafa drónar á vegum Bandaríkjahers og orrustuflugvélar gert nokkrar loftárásir á skotmörk á jörðu niðri. Árásirnar voru gerðar nærri borginni Fallujah, sem staðsett er vestur af höfuðborginni Baghdad, og nærri Sinjar-fjalli. 

Hersveitir Kúrda hafa að undanförnu staðið í ströngu við að verja bæinn Kobane gegn ásókn liðsmanna Ríkis íslams. Hefur Kúrdum nú borist liðsauki og voru loftárásir Bandaríkjahers gerðar í þeim tilgangi að tryggja komu þeirra til bæjarins. 

Þá er einnig talið að sveit breskra sérsveitarmanna (SAS) hafi að undanförnu leikið lykilhlutverk í vörnum bæjarins með því að leiðbeina sprengju- og orrustuvélum Bandaríkjamanna og annarra þjóða við loftárásir á vígamenn Ríkis íslams. Eru þeir m.a. sagðir hafa leiðbeint herþotum við árás á skriðdreka og brynvarðar bifreiðar liðsmanna hryðjuverkasamtakanna. 

Bærinn Kobane er nú að mestu undir stjórn Kúrda, en Bandaríkjaher hefur að undanförnu gert fjölmargar loftárásir þeim til stuðnings.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert