Festist á girðingu og lét lífið

mbl.is/Hjörtur

Lík karlmanns fannst í morgun fast á rimlagirðingu í Kensington-hverfi í London höfuðborg Bretlands. Maðurinn er talinn hafa verið á sextugsaldri en hefur ekki verið nafngreindur.

Fram kemur í frétt breska dagblaðsins Daily Telegraph að talið sé að maðurinn hafi ætlað að klifra yfir girðinguna en runnið til með þeim afleiðingum að rimlarnir stungust í hann. „Við teljum að hann kunni að hafa verið að klifra yfir girðinguna en þar sem þetta gerðist bara í morgun er rannsókn málsins enn í gangi.“

Haft er eftir talsmanni slökkviliðsins að maðurinn hafi fundist án meðvitunar og hann hafi ekki andað. Hann hafi verið úrskurðaður látinn í kjölfarið. Lögreglan hefur sent frá sér yfirlýsingu um að ekkert bendi til þess á þessari stundu að um saknæmt atvik hafi verið að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert