Breski sjálfstæðisflokkurinn með 19% fylgi

Nigel Farage, leiðtogi Breska sjálfstæðisflokksins.
Nigel Farage, leiðtogi Breska sjálfstæðisflokksins. AFP

Tæplega einn af hverjum fimm breskum kjósendum styður Breska sjálfstæðisflokkinn (UKIP) samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem fyrirtækið ComRes gerði dagana 24.-26. október. Flokkurinn berst einkum fyrir því að Bretland segi skilið við Evrópusambandið.

Fram kemur í frétt Bloomberg að Verkamannaflokkurinn og Íhaldsflokkurinn mælist báðir með 30% fylgi samkvæmt könnuninni en Breski sjálfstæðisflokkurinn með 19%. Samkvæmt fréttinni segjast 19% þeirra sem kusu íhaldsmenn í síðustu þingkosningum ætla að kjósa Breska sjálfstæðisflokkinn og 10% fyrrum kjósendur Verkamannaflokksins. Þingkosningar fara fram í Bretlandi á næsta ári en aukið fylgi Breska sjálfstæðisflokksins er einkum rakið til kröfu Evrópusambandsins nýverið um að Bretar greiddu meira í sjóði sambandsins en áður.

Skoðanakönnunin bendir ennfremur til þess að Mark Reckless sigri í aukakosningum í kjördæminu Rochester and Strood. Reckless var áður þingmaður Íhaldsflokksins en sagði af sér þingmennsku og gekk til liðs við Breska sjálfstæðisflokkinn. Kosningarnar fara fram í næsta mánuði og sigri Reckless verður hann annar kjörni fulltrúi flokksins á breska þinginu.

Könnunin var gerð dagana 24.-26. október og var úrtakið 1.002 einstaklingar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert