900 gráðu heitt hraun ógnar þorpi

Það er komið að því: rauðglóandi hraun úr eldfjallinu Kilauea á Hawaii hefur loks runnið yfir hús. Hraunið hefur nálgast þorpið Pahoa á Stórey (e. Big Island) vikum saman og runnið yfir um 10-15 metra lands á klukkustund. Það hefur þegar runnið yfir kirkjugarð. Nú eru mörg heimili í hættu. Íbúar um 50 húsa hafa verið beðnir að hafa varann á og undirbúa sig fyrir rýmingu svæðisins. 

Í gærkvöldi teygðu hrauntaumarnir sig að aðalgötu þorpsins, þar sem um 800 manns búa í nágrenni gamallar sykurplantekru.

„Kraftarnir koma úr iðrum jarðar svo við verðum að virða þá,“ segir Aaron Milewski, íbúi á svæðinu.

Hraunmolar, um 900 gráðu heitir, ruddust inn í verkfæraskúr á þriðjudag, en fóru sem betur fer fram hjá íbúðarhúsinu á lóðinni. Í kjölfarið klofnaði hraunstraumurinn og ein æðin teygði sig í átt að húsum sem þegar höfðu verið rýmd. 

Talið er að hraunstraumurinn muni að lokum ná til sjávar en í það eru enn 10 kílómetrar. 

Eldfjallið Kilauea hefur gosið margsinnis frá árinu 1983. Nýjasta gosið hófst í lok júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert