„Áfall fyrir kerfið“ að fá hvítan forseta

Guy Scott á ráðstefnu í Hvíta húsinu í ágúst. Hann …
Guy Scott á ráðstefnu í Hvíta húsinu í ágúst. Hann er nú settur forseti Sambíu. AFP

Hann er fyrsti hvíti leiðtogi Afríkuríkis frá því að aðskilnaðarstefnan var afnumin í Suður-Afríku. Hvítir eru aðeins 1% íbúa landsins. Guy Scott, sem er settur forseti Sambíu, getur þó ekki boðið sig fram til forseta í kosningum sem munu fara fram innan 90 daga. Lög landsins banna slíkt  þar sem foreldrar hans voru Bretar. Sambía var bresk nýlenda en fékk sína eigin stjórnarskrá árið 1996.

Michael Sata, forseti Sambíu, lést á sjúkrahúsi í London í vikunni. Þá varð varaforsetinn, Guy Scott, að taka við stjórnartaumunum tímabundið. 

Scott er sjötugur. Hann segir það hafa verið töluvert „áfall fyrir kerfið“ að fá hann allt í einu sem leiðtoga landsins

Árið 2012, er Scott var kynntur sem varaforseti Sambíu fyrir þáverandi Bandaríkjaforseta, George W. Bush, hélt sá síðarnefndi að „það væri grín“, rifjar Scott upp í viðtali við The Telegraph.

Scott hefur komist í fréttirnar fyrir íhaldssamar skoðanir sínar. Hann lýsti Suður-Afríkubúum eitt sinn sem „vanþróuðum“ og indversku borginni Jaipur sem „skelfilegum ruslahaug“.

„Ég hata Suður-Afríkubúa. Mér er illa við Suður-Afríku af sömu ástæðu og Suður-Ameríkubúum er í nöp við Bandaríkin. Landið er einfaldlega of stórt og flókið,“ sagði hann í viðtali við Guardian á síðasta ári.

Í sama viðtali sagði hann að Sata forseti hefði eitt sinn spurt sig: „Hvað vildirðu vera ef þú værir ekki hvítur?“ Scott sagðist hafa svarað: „Forseti“ og að það hafi „þaggað niður“ í honum.

Scott er fæddur í borginni Livingstone í Sambíu 1. júní árið 1944. Faðir hans var læknir sem snéri sér síðar að pólitík. 

Hann hefur verið þingmaður og einnig unnið hjá fjármálaráðuneytinu. Þá var hann landbúnaðarráðherra á árunum 1991-1995. Á þeim árum geisuðu miklir þurrkar og svínaflensa og er Scott sagður hafa náð góðum árangri í baráttunni við þetta tvennt, þjóð sinni til heilla. Þá var hann í flokki sem kallaði sig MMD, Movement for Multi-party Democracy, en árið 1996 stofnaði hann sinn eigin flokk, Lima-flokkinn. Lima þýðir landbúnaður á tungumáli innfæddra. Flokkurinn naut hins vegar lítils stuðnings og fljótlega gekk hann til liðs við Þjóðræknisflokkinn (e. Patriotic Front).

Hann segir að sumir leiðtogar í Afríku líti á hann sem nokkurs konar lukkudýr í afrískum stjórnmálum.

Hann segist dást að Robert Mugabe, forseta Simbabve, en hefur einnig lýst honum sem „fyndnum fýr“. Scott segir Mugabe oft dotta „en svo fer hann skyndilega að hlæja að brandara á meðan hann dottar.“ 

Scott var í skóla í Sambíu og svo Simbabve, en þá voru þessi lönd nýlendur og hétu Norður - og Suður-Ródesja. Hann fór svo í Cambridge-háskóla í Bretlandi og nam hagfræði og tók doktorspróf frá Sussex-háskóla. Að námi loknu kenndi hann um tíma við Oxford-háskóla. 

Hann og eiginkonan Charlotte eiga fjögur börn. Tvö þeirra búa í Bretlandi.

Guy Scott tekur í hönd yfirmanna hersins í Sambíu eftir …
Guy Scott tekur í hönd yfirmanna hersins í Sambíu eftir að hafa verið settur forseti í kjölfar andláts forsetans Michaels Sata. AFP
Michael Sata á framboðsfundi í Sambíu.
Michael Sata á framboðsfundi í Sambíu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert