Gliðnunin 1,5 sm á sólarhring

Mannen
Mannen AFP

Norskir fjölmiðlar hafa fylgst grannt með fjallinu Mannen undanfarnar vikur og hefur norska ríkisútvarpið meðal annars verið með beina útsendingu þaðan á vef sínum enda þess beðið að stór skriða falli hvað á hverju. 

Á mánudag var talað um nokkrar klukkustundir en enn hefur ekkert gerst, stóísk ró er yfir Mannen þrátt fyrir að fjallið gliðni um 1,5 sentimeter á sólarhring. 

Á blaðamannafundi í morgun sagði jarðfræðingurinn Lars Blikra að gott veður, heiður himinn og kuldi, auðveldi jarðfræðingum að fylgjast með snævaþöktum hlíðum fjallsins.

Hann telur að ef veðrið breytist ekki næstu daga sé ólíklegt að gliðnunin aukist og fjallið verði til friðs.

Norðmenn geta því haldið áfram að fylgjast með hægu raunveruleikasjónvarpi á vef norska ríkisútvarpsins og litlar líkur á hjartsláttartruflunum næstu klukkustundir hið minnsta hjá áhorfendum sem njóta þess að horfa á Mannen klukkutímum saman eftir að hafa fylgst með prjónaskap, viðarbruna og laxveiðum tímunum saman í gegnum tíðina. 

Blikra er undrandi á því hversu rólegt er yfir fjallinu og segir að hann viti hreinlega ekki hvað sé að gerast þarna undir niðri. 

<a href="http://www.aftenposten.no/nyheter/iriks/--Kommunen-kan-ikke-ta-ansvar-for-a-vannbombe-Mannen-7765630.html" target="_blank">Aftenposten</a>

<a href="http://www.nrk.no/mr/slik-har-natta-vore-i-fjellet-1.12015032" target="_blank">Fylgst með Mannen á NRK</a>

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert