Hótar að yfirgefa sóttkvína

Bandarískur hjúkrunarfræðingur sem starfaði með ebólu-sjúklingum í Síerra Leóne háir nú harða baráttu við yfirvöld í Maine sem halda henni í sóttkví á heimili hennar gegn hennar vilja.

Hún hefur hótað því að fara að heiman þrátt fyrir bannið og krefst þess að sóttkvínni verði aflétt, segir í frétt BBC.

Mál Kaci Hickox er prófmál á það hvort ríki Bandaríkjanna geti sett fólk í sóttkví án þeirra vilja. Forseti Bandaríkjanna, Barack Obamam hefur harðlega gagnrýnt það að heilbrigðisstarfsmenn sem hafa farið til Vestur-Afríku til að þess að aðstoða í baráttunni við ebólu-faraldurinn, séu þvingaðir í einangrun og segir þetta  fólk vera hetjur landsins.

Í dag mun sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, Samantha Power, hvetja þjóðir heims til þess að leggja enn frekar af mörkum í baráttunni gegn ebólu. Hún hefur verið á ferð í þeim löndum sem hafa orðið verst úti, Gíneu, Síerra Leóne og Líberíu, en með heimsókninni vilja bandarísk yfirvöld sýna stuðning sinn í verki. Hún mun ræða við helstu leiðtoga Evrópusambandsins í Brussel í dag um málefni tengd ebólu.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert