Sjö hermenn létust á sólarhring

AFP

Sjö úkraínskir hermenn hafa nú látist í átökum við aðskilnaðarsinna í landinu síðasta sólarhringinn. Er þetta mesta mannfall innan hersins í rúmlega tvær vikur.

„Síðasta sólarhring höfum við misst sjö hermenn, en ellefu slösuðust,“ sagði talsmaður hersins, Andriy Lysenko í samtali við fjölmiðla. 

Ró myndaðist í átökunum um helgina en þá voru haldnar alþingiskosningar í Úkraínu. Hins vegar hafa stjórnvöld í Kænugarði ásakað aðskilnaðarsinna um að ráðast á stöðvar hersins síðustu þrjá daga.

Að sögn Lysensko eru aðskilnaðarsinnarnir mest áberandi í suður Donetsk. Samkvæmt tölum frá hernum hafa 160 hermenn látið lífið í áttökunum síðan að samið var um vopnahlé 5. september. 

Alls hafa rúmlega 3700 manns látist í átökunum síðustu mánuði, aðallega almennir borgarar.

Úkraínskur hermaður á gangi í Donetsk héraði í vikunni.
Úkraínskur hermaður á gangi í Donetsk héraði í vikunni. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert