17 létust í rútuslysi

Ættingjar þeirra sem fastir eru í námu nærri bænum Ermenek …
Ættingjar þeirra sem fastir eru í námu nærri bænum Ermenek á slysstað í dag. AFP

Að minnsta kosti 17 létust og 29 slösuðust er ofhlaðin rúta féll á hliðina í Isparta-héraði í Suður-Tyrklandi í dag. Fólkið um borð var á leiðinni í eplatínslu í aldingarði í héraðinu.

Samkvæmt frétt AFP bilaði bremsa rútunnar sem varð til þess að hún féll á hliðina. Rútan rann þó áfram 100 metra eftir að hún féll. 

Alls voru 46 um borð í rútunni en hún hefur aðeins leyfi fyrir 27 farþega. Flestir um borð voru kvenkyns. 

Þeir sem rannsaka slysið telja að þyngd rútunnar hafi leitt til bremsubilunarinnar. 

Það þótti kraftaverk að fjögurra ára gamall drengur lifði slysið af, en hann sat í fangi afa síns, sem særðist alvarlega.

Slysið hefur nú varpað ljósi á aðstæður vinnufólks í landbúnaði í Tyrklandi en það vinnur við slæmar aðstæður á lágum launum. Fær það til dæmis aðeins um 16 bandaríkjadollara eða tæpar 2.000 krónur í laun á dag. 

Tyrknesk yfirvöld hafa líka oft verið gagnrýnd fyrir aðbúnað námumanna en nú standa yfir björgunaraðgerðir við kolanámu nærri bæn­um Ermenek eft­ir að náman lagðist að hluta til sam­an. Fjöru­tíu menn voru í námunni þegar slysið varð og einhverjir eru enn fastir inni í henni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert