Handtekinn eftir sjö vikur á flótta

Eric Matthew Frein,
Eric Matthew Frein, AFP

Bandaríska lögreglan handtók í gærkvöldi Eric Frein sem hafði verið á flótta undan réttvísinni í sjö vikur. Farið verður fram á dauðarefsingu yfir honum fyrir morð á lögreglumanni.

Frein hafði tekist að forðast handtöku í allan þennan tíma þrátt fyrir að yfir 200 lögreglumenn hafi fínkembt skóglendið í Pennsylvaníu þar sem hann faldist. Hann var hins vegar handtekinn í flugskýli í gærkvöldi samkvæmt upplýsingum frá lögreglu, að því er segir í frétt BBC. Samkvæmt frétt ABC komu allt að eitt þúsund lögreglumenn að leitinni þegar mest var.

Hann er sakaður um að hafa skotið lögreglumanninn Bryon Dickson fyrir utan herskála þann 12. september sl. og sært annan lögregluþjón.

Ríkisstjóri Pennsylvaníu, Tom Corbett, sagði á blaðamannafundi í gærkvöldi að Frein hafi verið handjárnaður við handtökuna og að handjárnin sem notuð voru hafi verið eign Dicksons.

Lögreglan lýsti Frein, sem er 31 árs, sem útilegumanni (survivalist) sem væri vopnaður og sérstaklega hættulegur.

Um tíma var skólum á svæðinu lokað vegna leitarinnar og íbúar beðnir um að halda sig innandyra. Lögregla notaði hunda, hitamyndavélar og jafnvel loftbelgi við leitina í skóglendi norðausturhluta ríkisins.

Lögreglan fann við leitina ýmsa hluti sem taldir voru tilheyra Frein. Má þar nefna tóma serbneska sígarettupakka, AK-47 riffil, skotfæri og tímarit þar sem fjallað var ítarlega um leitina.

Frein var kominn á lista bandarísku alríkislögreglunnar (FBI) yfir þá tíu glæpamenn sem taldir eru hættulegastir. Hét lögreglan þeim sem gætu veitt upplýsingar sem myndu leiða til handtöku Freins 175 þúsund Bandaríkjadölum, 21,4 milljónir króna.

Skipulagði árásina í marga mánuði

Lifir á túnfiski og núðlum

Leita enn morðingjans

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert