Hvolparæktandi dæmdur fyrir morð

Police Lögregla í Bretlandi
Police Lögregla í Bretlandi Wikipedia

Hvolparæktandi hefur nú verið dæmdur í að minnsta kosti 25 ára fangelsi fyrir að hafa myrt kærustu sína og dóttur. 

Maðurinn heitir John Lowe og er 82 ára. Hann notaði haglabyssu til þess að myrða kærustu sína, Christine Lee og dótur hennar Lucy í febrúar. Fréttastofan Sky segir frá þessu. 

Christine var 66 ára en Lucy 40 ára.

Lowe neitaði sök og sagði að konurnar hefðu látist í slysi. „Þetta voru hræðileg mistök,“ sagði hann meðal annars. 

Kviðdómurinn dæmdi hann þó sekan eftir að þau heyrðu vitnisburð lögreglu sem kom á staðinn eftir morðin. Kom þar fram að Lowe hafði sagst hafa „lógað“ konunum því þær hafi verið „erfiðar“ í margar vikur. 

Samkvæmt frétt Sky sást til Lowe blikka og brosa í dómssalnum þar sem m.a. sátu ættingjar kvennanna sem hann skaut. 

Við réttarhöldin var spilað símtal sem Lucy Lee átti við Neyðarlínuna eftir að Lowe skaut móður hennar. 

„Ég veit ekki hvort ég lifi það af að fara aftur þangað inn,“ sagði Lucy m.a..

Hún var síðar skotin tvisvar, en talið er að Lowe hafi hlaðið byssuna á milli skota. 

Saksóknari í málinu sagði að „blóðbað“ hafi mætt lögreglunni er hún kom á staðinn. Christine hafði verið skotin í bringuna af stuttu færi á meðan dóttir hennar var skotin í höfuðið. 

Lowe var með byssuleyfi og notaði byssuna yfirleitt til þess að drepa rottur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert