Betur fór en á horfðist

Betur fór en á horfðist í fyrstu er eldur kom upp á sjöundu hæð Útvarpshússins (Maison de la Radio) í sextánda hverfi Parísarborgar í gær. Verið er að gera húsið upp og eru framkvæmdirnar þær viðamestu á húsi sem enn er í notkun. Verkinu á að ljúka 2016 og nemur kostnaðurinn 350 milljónum evra, sem svarar til 54 milljarða króna.

Greiðlega gekk að slökkva eldinn en hann er rakinn til framkvæmda í húsinu. Byggingin var rýmd um tíma en nokkur fjölmiðlafyrirtæki eru starfandi í húsinu. Stöðvuðust meðal annars útsendingar tveggja útvarpsstöðva, France Info og France Inter, um tíma.

Fjölmargir fylgdust með slökkvistarfinu en alls voru 60 slökkviliðsmenn á 16 slökkviliðsbílum sendir á vettvang. Meðal þeirra sem fylgdust með var forseti Frakklands, François Hollande, en hann lýsti yfir áhyggjum sínum af eldsvoðanum á blaðamannafundi í París með forseta Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan.

Útvarpshúsið er fimmtíu ára gamalt og hefur verið unnið að endurbótum á húsinu frá árinu 2009. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert