Framkvæmdastjórn ESB - hvað gerir hún?

Jean-Claude Juncker, nýr forseti framkvæmdastjórnar ESB, ásamt forvera sínum í …
Jean-Claude Juncker, nýr forseti framkvæmdastjórnar ESB, ásamt forvera sínum í embætti José Manuel Barroso. AFP

Frá og með deginum í dag tekur ný framkvæmdastjórn við völdum innan Evrópusambandsins undir forsæti Jean-Claude Junckers en hann var áður forsætis- og fjármálaráðherra Lúxemburg um árabil. Hann tekur við af José Manuel Barroso sem verið hefur forseti framkvæmdastjórnarinnar frá árinu 2004. Kjörtímabil framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins er fimm ár og lýkur þannig kjörtímabili nýrrar stjórnar haustið 2019. 

Jean-Claude Juncker var fæddur árið 1954 í bænum Redange í Lúxemburg. Hann var forsætisráðherra landsins frá 1995-2013 og fjármálaráðherra frá 1989-2009. Juncker fór fyrir fjármálaráðherrum evruríkjanna 2005-2013 og var frambjóðandi Evrópska þjóðarflokksins í embætti forseta framkvæmdastjórnarinnar í aðdraganda kosninganna til Evrópuþingsins í vor. Juncker lauk meistaragráðu í lögfræði frá Háskólanum í Strabourg í Frakklandi árið 1979.

Ekki heimilt að ganga erinda heimalandsins

Samtals sitja í nýrri framkvæmdastjórn Evrópusambandsins 28 einstaklingar, einn frá hverju ríki sambandsins. Hver og einn þeirra fer með ákveðinn málaflokk eða málaflokka en framkvæmdastjórnin virkar þannig að mörgu leyti með hliðstæðum hætti og ríkisstjórn. Framkvæmdastjórarnir eru tilnefndir af ríkisstjórnum heimalanda sinna og er tilnefning þeirra síðan háð samþykki Evrópuþingsins. Þeim er hins vegar óheimilt samkvæmt sáttmálum Evrópusambandsins að ganga erinda heimalanda sinna.

Sú nýbreytni er að þessu sinni að fyrsti og annar varaforseti framkvæmdastjórnarinnar, Frans Timmermans og Kristalina Georgieva, verða yfir aðra í framkvæmdastjórninni settir að undanskildum Juncker. Öðrum framkvæmdastjórum er síðan skipt í fimm hópa undir forystu annarra varaforseta framkvæmdastjórnarinnar. Hugmyndin hefur verið að fækka verulega fulltrúum í framkvæmdastjórninni en til þessa hafa ýmis ríki Evrópusambandsins mótmælt því mjög. Það mun þó enn vera stefnan til lengri tíma litið.

Fer með framkvæmdavaldið innan ESB

Hlutverk framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins felst í því að fara með framkvæmdavaldið innan sambandsins. Hún hefur einkarétt á því að koma með tillögur að nýrri lagasetningu á vettvangi Evrópusambandsins, sér um að framkvæma ákvarðanir sem teknar eru af ráðherraráði sambandsins, ber ábyrgð á því að sáttmálum þess sé framfylgt og heldur utan um daglegan rekstur þess.

Rekja má upphaf framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins til ársins 1951 en fyrsti forveri þess fór með höndum framkvæmdavaldið í Kola- og stálbandalaginu svokölluðu. Yfirlýst markmið bandalagsins var að koma í veg fyrir frekari stríð á milli Frakklands og Þýskalands eftir hörmungar síðari heimsstyrjaldarinnar með því að setja kola- og stálframleiðslu aðildarríkjanna undir yfirþjóðlega stjórn. Auk Frakka og Vestur-Þjóðverja áttu aðild að bandalaginu Lúxemburg, Belgía, Holland og Ítalía.

Æðsta yfirstjórn Kola- og stálbandalagsins var árið 1967 sameinuð framkvæmdastjórn Kjarnorkubandalags Evrópu og Efnahagsbandalags Evrópu. Framkvæmdastjórn þess síðastnefnda er gjarnan talin fyrsta eiginlega framkvæmdastjórnin en hún var sett á laggirnar 1958 undir forsæti Walters Hallstein.

Bretum þótti Delors of mikill federalisti

Þekktasta framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er líklega sú sem starfaði undir forsæti Jacques Santer frá 1995-1999 en hún er sú eina sem hefur neyðst til að segja af sér í heilu lagi en ástæða þess voru ásakanir um alvarlega spillingu. Forveri Santers í embætti, Jacques Delors, þykir á hinn bóginn af mörgum hafa átt einna farsælastan feril sem forseti framkvæmdastjórnarinnar en ýmis stór samrunaskref áttu sér stað undir hans stjórn. Þar á meðal Maastricht-sáttmálinn sem lagði grunninn að Evrópusambandinu eins og það er þekkt í dag og sömuleiðis evrunni.

Delors var forseti framkvæmdastjórnarinnar frá 1985-1994. Þegar hann hætti var lagt til að Jean-Luc Dehaene, þáverandi forsætisráðherra Belgíu, tæki við embættinu en breska ríkisstjórnin beitti hins vegar neitunarvaldi gegn skipun hans á þeim forsendum að hann væri of mikill sambandsríkissinni. Ástæðan var ekki síst sú að Bretum hafði þótt Delors að sama skapi of hlynntur þróun Evrópusamrunans í átt til eins ríkis. Þeir féllust hins vegar á Santer á þeim forsendum að hann væri ekki eins hallur undir slíkar hugmyndir.

Rifja má upp í því sambandi að núverandi ríkisstjórn Bretlands undir forystu Davids Camerons forsætisráðherra reyndi að koma í veg fyrir að Juncker yrði skipaður forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á sömu forsendum. Það er að hann væri of mikill sambandsríkissinni. Bretum tókst hins vegar ekki að koma í veg fyrir skipun Junckers nú líkt og Dehaenes fyrir tveimur áratugum síðan. Ástæðan er einkum sú að einstök ríki sambandsins hafa ekki lengur neitunarvald í þeim efnum.

Frans Timmermans, nýr fyrsti varaforseti framkvæmdastjórnar ESB.
Frans Timmermans, nýr fyrsti varaforseti framkvæmdastjórnar ESB. AFP
Kristalina Georgieva, nýr annar varaforseti framkvæmdastjórnar ESB.
Kristalina Georgieva, nýr annar varaforseti framkvæmdastjórnar ESB. AFP
Höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í Brussel.
Höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í Brussel. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert