Falsað myndband frá Sýrlandi vekur sterk viðbrögð

Drengurinn virðist verða fyrir skoti, áður en hann rís upp …
Drengurinn virðist verða fyrir skoti, áður en hann rís upp og bjargar vinkonu sinni. Skjáskot/Youtube

Á mánudaginn birtist myndband á Youtube, sem sýna átti þegar ungur drengur varð fyrir skoti í Sýrlandi. Fellur hann til jarðar, áður en hann stendur upp aftur og hleypur að vinkonu sinni og kemur henni til bjargar. Nú hefur verið staðfest að myndbandið er leikið, framleitt af norskum leikstjóra.

Myndbandið átti að sýna aðstæður barna á stríðshrjáðum svæðum í heiminum. Þegar upp komst um upphaf myndbandsins, vakti það sterk viðbrögð. Mörgum fannst myndbandið vera á gráu svæði siðareglna fréttamanna. Leikstjóri myndbandsins skrifaði handrit myndbandsins eftir að hafa séð fréttaskýringu um ástandið í Sýrlandi.

Kjersti Løken Stavrum, formaður í norska blaðamannafélaginu, segir myndbandið ekki í samræmi við siðareglur. „Mér finnst þetta siðlaust. Þetta eyðileggur fyrir þeim sem vinna við að miðla mikilvægum upplýsingum og þetta eyðileggur fyrir þeim sem eru háðir erlendri aðstoð, þeim sem búa á stríðshrjáðum svæðum,“ segir Stavrum í samtali við Aftenposten. 

„Fólk sem býr við erfiðar aðstæður í heiminum er háð erlendri aðstoð. Það síðasta sem þetta fólk þarf á að halda er leikin upptaka af einhverju sem mögulega gæti gerst. Næst þegar fólk sér svipað myndband úr raunveruleikanum, gæti fólk hugsað með sér að það sé líka skáldskapur frá upphafi,“ bætir Stavrum við. 

Um 2,8 milljónir manna hafa séð myndbandið umrædda. Leikstjórinn segir við Aftenposten að hann skilji sjónarmið Stavrums. „Ég skil að það veki viðbrögð fjölmiðla að myndbandið sé skáldskapur. En við vildum leggja áherslu á þær aðstæður sem börn þurfa að búa við á stríðshrjáðum svæðum. Það skortir verulega á að upplýst sé um aðstæður barna. Við viljum ljá þeim rödd okkar og lýsa aðstæðum þeirra,“segir Lars Klevberg, leikstjóri myndbandsins.

Hér má sjá myndbandið umrædda.  

Sjá frétt Aftenposten

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert