22 ára Frakki meðal böðlanna

Franskir fjölmiðlar greina frá því að tveir Frakkar sjáist meðal böðlana við aftöku á bandaríska hjálparstarfsmanninum Peter Kassig í gær. Auk Kassig voru 18 sýrlenskir hermenn teknir af lífi. 

Innanríkisráðherra Frakklands, Bernard Cazeneuve, staðfestir í dag að mjög miklar líkur séu á því að einn böðlana sé Frakki og samkvæmt heimildum AFP fréttastofunnar er nú rannsakað hvort annar Frakki sjáist á myndskeiðinu sem er 15 mínútur og sýnir þegar mennirnir eru teknir af lífi.

Í myndskeiðinu sjást böðlarnir standa yfir afhöggnu höfði sem þeir segja að sé Kassig sem var rænt í Sýrlandi í fyrra. Auk hans sjást á annan tug karlmanna sem her haldið af ógrímuklæddum liðsmönnum Ríki íslams, að því er fram kemur í frétt frönsku sjónvarpsstöðvarinnar France24. 

Sjást böðlarnir, vopnaðir herhnífum, neyða fangana til þess að krjúpa og afhöfða þá. Í myndskeiðinu, sem er í mjög góðri upplausn, eru sýndar nærmyndir af böðlunum.

Í frönskum fjölmiðlum er því haldið fram að einn böðlanna sé  Abou Abdallah Al-Faransi, Frakki sem heitir réttu nafni Maxime Hauchard og er 22 ára gamall. Hann er frá Normandí en fór til Sýrlands að berjast í fyrra.

Fréttamaður France24, Wassim Nasr, sem hefur sérhæft sig í starfsemi hryðjuverkasamtaka, segir að Al-Faransi hafi komið fram í nokkrum myndskeiðum Ríki íslams. Mamime hafi snúist til íslam þegar hann var sautján ára gamall. Hann hefur aldrei komist í kast við lögin í Frakklandi. 

Frétt Le Parisien

Radio France Internationale (RFI) segir að annar Frakki sé meðal böðlana og hefur þetta eftir nokkrum heimildarmönnum innan Ríki íslams. RFI segir að Frakkarinir hafi tekið sitthvorn hermanninn af lífi.

Íslamistinn Maxime komst fyrst í fréttir franskra fjölmiðla í júlí eftir að hafa veitt BFM sjónvarpsstöðinni langt viðtal. Að sögn fréttamannsins Julien Martin, virtist Maxime vera venjulegt franskt ungmenni og allir sem þekktu hann í Frakklandi báru honum góða söguna.

Í viðtalinu kom fram að hann hafi farið til Sýrlands sumarið 2013 en hann hefði verið í skóla sem kenndi kóraninn í Máritaníu. Hann hafi fyrst ætlað sér að fara til Malí að berast með skæruliðum þar en síðan ákveðið að fara frekar til Sýrlands. 

Tvítugur breskur læknanemi meðal böðlanna

Faðir bresks manns, sem er að berjast með Ríki íslams í Sýrlandi, segist telja að sonur sinn sé einn böðlanna í myndskeiðinu.

„Ég get ekki sagt það með fullri vissu en þetta svipar mjög til sonar míns,“ segir faðir Nasser Muthana, tvítugs læknanema frá Cardiff í Wales, í viðtali við Daily Mail.

Faðirinn, Ahmed Muthana, segir að sonur sinn hljóti að óttast Allah núna. „Hvernig getur hann vænst þess að mæta Allah eftir að hafa myrt fólk?,“ segir Muthana í viðtalinu.

Nasser Muthana kom fram í myndskeiði Ríki íslams í júní þegar samtökin voru að hvetja ungt fólk til þess að taka þátt í stríðinu. Yngri bróðir hans, Aseel, 17 ára, er einnig liðsmaður Ríki íslams í Sýrlandi.

Ahmed Muthana segir að sonur sinn sé ekki velkominn heim á ný eftir að myndskeiðið birtist sem sýnir 18 menn afhöfðaða. „Hann hlýtur að vera veikur á geði - eða eitthvað annað amar að.“ 

Frétt Le Monde

Le Figaro

Liberation

Maxime Hauchard eða Abu Abdallah al-Faransi, er til hægri á …
Maxime Hauchard eða Abu Abdallah al-Faransi, er til hægri á myndinni en þetta er skjáskot úr myndskeiðinu AFP
Maxime Hauchard
Maxime Hauchard AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert