Telur að árið sé 1996

mbl.is/Hjörtur

Bresk kona varð fyrir heilaskemmdum fyrir 18 árum þegar hún gekkst undir uppskurð sem varð þess valdandi að hún er andlega föst í fortíðinni. Þetta kemur fram á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph en dómsmál er nú í gangi í Bretlandi vegna málsins.

Konan er á fimmtugsaldri en hún telur að árið sé ennþá 1996, það er árið sem hún gekkst undir uppskurðinn. Hún var 34 ára þegar uppskurðurinn var framkvæmdur. Konan telur að hún búi enn á þeim stað þar sem hún og fjölskylda hennar bjó fyrir 18 árum og að börnin hennar, sem í dag eru öll fullorðin, séu enn lítil börn.

Fram kemur í fréttinni að konan hafi ekki verið nafngreind við réttarhöldin en hún glími við verulega andlega fötlun að sögn dómara í málinu. Andlega sé hún föst í fortíðinni. Þá kom fram í máli hans að konan hefði fyrir vikið meðal annars tilhneigingu til þess að fara á flakk í þeim tilgangi að reyna að finna börnin sín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert