Ástandið í Gíneu orðið stöðugt

Hjálparstarfsmenn á vegum Rauða krossins í Frakklandi hjálpa veikum í …
Hjálparstarfsmenn á vegum Rauða krossins í Frakklandi hjálpa veikum í Gíneu. Ástandið í landinu er nú talið stöðugt. AFP

Að sögn Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, WHO, er ástandið í Vestur-Afríkuríkinu Gíneu nú orðið stöðugt eftir margra mánaða baráttu gegn ebólu-faraldrinum sem geisað hefur í landinu. 

„Ebólan skýtur upp kollinum við og við í suðausturhluta landsins en í heildina er ástandið orðið stöðugt,“ segir Guenael Rodier, fulltrúi WHO í landinu. Alls hafa 5.400 manns látið lífið vegna veirunnar á undanförnum mánuðum. Verst var ástandið í Gíneu, Síerra Leone og Líberíu. Um 15 þúsund manns hafa smitast af veirunni frá því að faraldurinn hófst. 

„Þegar ástandið í Gíneu er skoðað sést að ástandið er að verða stöðugt en það er ennþá slæmt í frumskógarhéruðum landsins,“ bætir Rodier við. 

Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna. hefur sagt að faraldurinn geti endað um mitt árið 2015. Verst sé nú ástandið í Malí þar sem sex hafa látist upp á síðkastið og sjöunda tilfelli veirunnar hefur verið staðfest. 

Hjálparstarfsmenn í löndunum þar sem ástandið er verst glíma við margs konar vanda. Margir íbúar landanna vita ekki af sjúkdómnum, eða gera sér ekki grein fyrir alvöru hans. Sum hjálparteymi sem berjast gegn sjúkdómnum fá ekki að heimsækja ákveðna bæi vegna hræðslu bæjaryfirvalda við að hjálparteymin kunni að bera með sér sjúkdóminn að sögn Tulips Mazumdar, starfsmanns breska ríkissjónvarpsins í Síerra Leóne. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert