Bill Cosby fagnað í Flórída

Bill Cosby.
Bill Cosby. AFP

Grínistinn Bill Cosby hélt uppistand í Melbourne í Flórída í gær. Var þetta fyrsta sýning í uppistandsferðalagi Cosbys um Bandaríkin. Ferill Cosbys er núna í uppnámi eftir að hann var ásakaður um að byrla konum ólyfjan og nauðga fyrir nokkrum áratugum. Alls hafa sex konur ásakað Cosby um misferli síðustu vikur.

Það kom þó augljóslega ekki að sök í Flórída í gær þar sem tekið var á móti grínistanum með standandi lófaklappi. Grínistinn var á sviðinu í 90 mínútur en minntist ekkert á ásakanir kvennanna. 

Blaðamaður The Guardian ræddi við fólk á  uppistandinu. Sumir gestir sögðust hafa óttast að illa yrði tekið á móti  Cosby eða sýningin trufluð af mótmælendum. Þær áhyggjur voru óþarfi en aðeins mættu þrír fyrir utan salinn til þess að mótmæla. 

Flestir ef ekki allir í salnum voru miklir stuðningsmenn Cosbys og sumir öskruðu „við elskum þig, Bill Cosby!“ sem grínistinn svaraði með krepptum hnefa. 

Tamara Alldredge er 46 ára. Hún keyrði í meira en klukkutíma til þess að koma til Melbourne og mótmæla komu grínistans. „Ég hélt að það yrðu fleiri hérna að mótmæla. Ég held að tóm sæti og mótmæli geti sagt mikið. Rétt eins og þögn Cosbys þegar það kemur að þessu máli segir mikið,“ sagði hún í samtali við The Guardian.

„Hann hefur alltaf litið út fyrir að vera frábær maður,“ sagði annar mótmælandi, Julie LeMaitre. Hún hélt á skilti sem á stóð „nauðgun er enginn brandari“.

„Ég held að hann muni aldrei ná sömu virðingu og áður. Ég held að það verði erfitt fyrir hann að komast upp úr þessu,“ bætti hún við. 

Að mati blaðamanns The Guardian er það þó óljóst. Fjölmörgum uppistandssýningum Cosbys hefur nú verið aflýst. Sjónvarpsstöðin NBC er hætt við að framleiða nýjan þátt með grínistanum og stöðin TV Land hefur hætt endursýningum á The Cosby Show. 

Á fimmtudaginn hætti Netflix við sérstakan þátt um Cosby sem sýna átti 28. nóvember. Þátturinn átti að marka endurkomu grínistans, en hann er 77 ára gamall. 

En Cosby lék á als oddi í gærkvöldi og var ánægður með áhorfendur. Ekki var að sjá á honum að hann væri áhyggjufullur.

Ekki leit heldur út fyrir að áhorfendurnir hefðu miklar áhyggjur af ásökunum kvennanna.

„Ég ólst upp með plötunum hans,“ sagði Judy Pollard við blaðamann The Guardian. Hún hafði keypt sér miða á uppistandið sama dag og þeir fóru í sölu og datt aldrei annað í hug en að fara. 

„Það er gott að vita að Melbourne er ennþá siðmenntaður staður,“ sagði hún og vísaði til þess hversu fáir mótmælendur væru á svæðinu. 

Fleiri aðdáendur Cosbys voru á sömu skoðun. Cosby er saklaus þar til annað kemur í ljós. 

Umfjöllun The Guardian má lesa í heild sinni hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert