Fjörutíu látnir úr svartadauða

Antananarivo, höfuðborg Madagaskar.
Antananarivo, höfuðborg Madagaskar. Mynd/Wikipedia

Fjörutíu manns hafa látist vegna farsóttar sem er jafnan kölluð svartidauði á Madagaskar. Jafnframt hafa næstum því 80 aðrir sýkst.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) segir frá þessu í dag. Stofnunin varaði jafnframt við hversu hratt plágan getur breiðst út í höfuðborg landsins Antananarivo. BBC segir frá þessu.

Svartidauði er skaðvæn farsótt sem einkennist af eitlabólgu, sótthita og örmögnun. Hún berst með flóm á rottum til manna. 

Ástandið versnar eftir því sem flærnar þola skordýraeitur betur samkvæmt upplýsingum frá WHO. 

Ef sjúkdómurinn greinist snemma er hægt að gefa sýklalyf við veikinni. En 2% tilfellanna í Madagaskar eru flokkuð sem hættulegri útgáfa af sjúkdómnum sem getur smitast frá manni til manns með hósta. 

Talið er að faraldurinn hafi hafist í lok ágúst í þorpinu Soamahatamana í héraðinu Tsiroanomandidy sem er í um 200 kílómetra fjarlægð frá höfuðborginni.

„Það er nú hætta á því að faraldurinn muni breiða úr sér í borginni en hún er mjög þéttbyggð og heilbrigðiskerfið lélegt,“ sagði í yfirlýsingu WHO. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert