Ólíklegt að samkomulag náist

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sést hér funda með Í Vín …
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sést hér funda með Í Vín með Catherine Ashton, utanríkismálastjóra Evrópusambandsins, og Mohammad Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans. AFP

Útlit er fyrir að samningar muni ekki nást í viðræðum við Írana um kjarnorkuáætlun landsins, en frestur til að komast að samkomulagi átti að renna út á morgun. Viðræðurnar fara nú fram í Vín í Austurríki. 

Talsmenn bandarískra og þýskra stjórnvalda segja að unnið sé að því að fylla í stór skörð en talið er að fresturinn verði framlengdur. Þetta kemur fram á vef BBC.

Sex ríki, svokölluð P5+1-ríki, hafa það markmið að koma í veg fyrir að Íranar geti framleitt kjarnavopn en Íranar hafa farið fram á að refsiaðgerðum gegn þeim verði aflétt. Ríkin sex eru Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Rússland, Kína og Þýskaland.

Íranar hafna því að þeir ætli sér að smíða kjarnorkuvopn og að kjarnorkuáætlun landsins snúist aðeins um orkunotkun og tilgangurinn því friðsamlegur.

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í gær að menn ynnu af krafti og vonaðist til að árangur væri að nást. Hann bætti við að það „eru stór skörð [...] sem við vinnum nú að því að fylla í“.

Kerry lét ummælin falla eftir að hann frestaði för sinni til Parísar svo hann gæti setið fund með Mohammad Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans, en það var fjórði fundur þeirra á þremur dögum.

Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands, segir að viðræðurnar hafi verið uppbyggilegar. „Það skal hins vegar engum dyljast að enn er stórt skarð á milli okkar á mörgum sviðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert