Tímamót í Túnis

Beji Caid Essebsi þykir sigurstranglegastur.
Beji Caid Essebsi þykir sigurstranglegastur. AFP

Forsetakosningar fara fram í Túnis í dag en um 5,3 milljónir eru þar á kjörskrá. Þetta eru fyrstu forsetakosningar í fyrrverandi einræðisríkinu frá árinu 2011, frá byltingunni sem er kennd við arabíska vorið.

Beji Caid Essebsi, sem er fyrrverandi forsætisráðherra landsins, þykir sigurstranglegastur af þeim 27 sem eru í framboði. Essebsi er 87 ára gamall. Flokkur hans, Nidaa Tounes, vann sigur í þingkosningunum í síðasta mánuði. 

Moncef Marzouki, fráfarandi forseti landins, sækist einnig eftir endurkjöri sem og nokkrir fyrrverandi ráðherrar sem þjónuðu í tíð einræðisherrans Zine El Abidine Ben Ali, sem var steypt af stóli í byltingunni fyrir þremur árum.

Mikil öryggisgæsla er í landinu, en mörg þúsund lögreglu- og hermenn gæta öryggis íbúa á kjörstöðum. Margir óttast að íslamskir öfgamenn muni gera tilraun til að hafa áhrif á kosningarnar. 

Kjörstöðum verður víðast hvar lokað klukkan 17 að íslenskum tíma.

Nái enginn hreinum meirihluta verður aftur boðað til kosninga í desember á milli tveggja efstu frambjóðenda.

Aðeins tveir forsetar hafa verið við völd í landinu fram að byltingunni árið 2011. Sá fyrri er Habib Bourguiba, sem er kallaður faðir sjálfstæðisins, en hann var forseti frá árinu 1956. Hinn er Ben Ali sem steypti Bourguiba af stóli í byltingu árið 1987.

Breytingar voru gerðar á stjórnarskrá landsins til að koma í veg fyrir að nýr einræðisherra komist til valda. Vald forsetans hefur verið takmarkað. Framkvæmdavaldið hefur verið fært að hluta í hendur forsætisráðherra. 

Öryggisgæsla er mikil í landinu.
Öryggisgæsla er mikil í landinu. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert