Viðbúnaður vegna sprengju í Rennes

Frá Rennes í Frakklandi.
Frá Rennes í Frakklandi. mynd/Wikipedia

Mikill viðbúnaður er í frönsku borginni Rennes eftir að 250 kg sprengja frá tímum seinni heimsstyrjaldarinnar fannst þar í dag. Stórt svæði hefur verið rýmt en um 3.000 íbúar urðu að yfirgefa heimili sín á meðan sprengjusérfræðingar vinna að því að aftengja sprengjuna.

Nathalie Appere, borgarstjóri Rennes, segir að sprengjan hafi fundist skammt frá ráðhúsi borgarinnar. Þar standa yfir framkvæmdir en unnið er að lagningu nýrrar línu fyrir jarðlestakerfi borgarinnar. 

Appere segir að um 70 kg af sprengiefni hafi verið í sprengjunni og að sprengjusérfræðingar lögreglunnar standi frammi fyrir erfiðu verkefni, en það sé ekki hlaupið að því að aftengja svona sprengju. 

„Þeir þurfa að gera það með höndunum í stað þess að nota fjarstýrðan búnað,“ segir borgarstjórinn. 

Rétt fyrir klukkan 9 að staðartíma (kl. 8 að íslenskum tíma) hóf lögreglan að rýma öll heimili og fyrirtæki í um 270 metra fjarlægð frá sprengjunni. Slökkvistöð og hjúkrunarheimili fyrir eldri borgara eru þar á meðal.

Búist er við að aðgerðin muni taka yfir sex klukkustundir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert