Hagel segir af sér

Barack Obama forseti og Chuck Hagel, fráfarandi varnarmálaráðherra, á blaðamannafundi …
Barack Obama forseti og Chuck Hagel, fráfarandi varnarmálaráðherra, á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í dag. AFP

Chuck Hagel, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hefur sagt af sér eftir að hafa verið í embættinu í innan við tvö ár. Barack Obama forseti staðfesti afsögn hans á sameiginlegum blaðamannafundi nú síðdegis. Arftaki hans gæti mögulega verið fyrsta konan til að gegn embætti varnarmálaráðherra. 

Ólíkum sögum fer af því hvort að Hagel hafi í raun sagt af sér eða hvort að hann hafi verið látinn taka pokann sinn. Hann lagði sig þó í líma um að taka fram að hann hafi sjálfur kosið að hverfa frá embættinu á blaðamannafundinum. Fyrr í dag hafði The New York Times haft það eftir háttsettum embættismönnum að Obama hygðist reka Hagel í ljósi gagnrýni sem hefði komið fram á viðbrögð hans við þjóðaröryggishættum á borð við Ríkis íslams og ebólufaraldurinn.

Obama fékk Hagel, sem var öldungadeildarþingmaður repúblíkana sem var andsnúinn stríðinu í Írak, í embættið til að annast liðsflutninga Bandaríkjahers frá Afganistan og til að aðlaga það lækkandi fjárveitingum. Nú er forsetinn sagður vilja annan mann í starfið til að bregðast við nýjum ógnum á borð við Íslamska ríkið.

Á meðal þriggja mögulegra eftirmanna Hagel sem nefndir hafa verið er Michele Flournoy, fyrrverandi aðstoðarvarnarmálaráðherra, talin líklegust. Hún yrði fyrsta konan sem færi með lyklavöld í Pentagon, höfuðstöðvum varnarmálaráðuneytisins. Hagel mun gegn embættinu þar til eftirmaður hans hefur verið tilnefndur.

Obama neyðir varnarmálaráðherrann út

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert