Myrti tvær og talinn sakhæfur

Bankastarfsmaðurinn Rurik Jutting í varðhaldinu í Hong Kong.
Bankastarfsmaðurinn Rurik Jutting í varðhaldinu í Hong Kong. AFP

Breskur maður sem ákærður er fyrir að myrða tvær konur í Hong Kong er sakhæfur. Maðurinn, sem er 29 ára, hefur verið í varðhaldi í Hong Kong og gekkst þar undir geðrannsókn sem tók tvær vikur. Dómari hefur nú úrskurðað hann sakhæfan. 

Rurik Jutting er sakaður um að hafa drepið Sumarti Ningsih og Seneng Mujiasih en lík þeirra fundust í íbúð hans 1. nóvember.

Konurnar voru frá Indónesíu. Þær voru með atvinnuleyfi í Hong Kong sem heimilisþernur en unnu í kynlífsiðnaðinum. 

Réttarhöldin munu ekki hefjast fyrr en 6. júlí á næsta ári þar sem saksóknarinn hefur farið fram á góðan tíma til að rannsaka málið.

Jutting starfaði áður sem starfsmaður bankans Merrill Lynch. Honum er lýst sem bráðgáfuðum en hann útskrifaðist úr Cambridge-háskóla. Hann er sagður mjög metnaðarfullur og hafa verið „dæmigerður bankamaður“ sem gerði miklar kröfur til sín í vinnu og íþróttum.

Jutting hringdi sjálfur á lögregluna sem kom á vettvang og fann lík kvennanna í íbúð hans. Á vettvangi fannst kókaín og einnig kynlífsleikföng. Lík annarrar konunnar var nakið og á hálsi hennar og rasskinnum voru stungusár. Lík hinnar konunnar var farið að rotna en því hafði verið troðið ofan í ferðatösku á svölum íbúðarinnar. Talið er að hún hafi látist hinn 27. október, nokkrum dögum fyrr en hin konan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert