NATO-aðild Finna myndi skaða samskipti við Rússa

Sauli Niinistö, forseti Finnlands.
Sauli Niinistö, forseti Finnlands. AFP

Ef Finnar gengu til liðs við Atlantshafsbandalagið (NATO) myndi það skaða samskipti þeirra við Rússa. Þetta segir Sauli Niinistö, forseti Finnlands, en hann telur að þetta sé ekki rétti tíminn til að ganga í hernaðarbandalagið.

Alexander Stubb, forsætisráðherra Finnlands, hefur verið stuðningsmaður þess að Finnar gangi í NATO. Niinistö var spurður í viðtali við The Washington Post í gær um nýlegar yfirlýsingar Stubb um að Finna hefðu átt að ganga í bandalagið fyrir tuttugu árum. Forsetinn benti á að engar skýrar tillögur hafi verið lagðar fram um inngöngu Finna og hún hefði hvorki verið rædd formlega né ákveðin.

„Það er ákaflega augljóst að ef Finnland gengur í NATO þá myndi það vafalaust skaða samskiptin [við Rússa]. Það verður að hafa í huga að 1.300 kílómetrar eru mjög löng landamæri og maður heldur þeim ekki bara lokuðum. Þvert á móti þá eru þetta virk landamæri,“ segir Niinistö.

Hann féllst þó á að NATO-aðild væri möguleiki í framtíðinni og sagðist ekki vera ósammála forsætisráðherranum um að Finnar hefðu átt að vera búnir að ganga í hernaðarbandalagið.

Niinistö benti hins vegar á að þrátt fyrir að Finnar ættu ekki aðild að NATO þá væri enn herskylda þar og landið byggi yfir 250.000 manna herliði. Samkvæmt Lissabon-sáttmálanum væru Finnar skuldbundnir til þess að koma öðrum aðildarríkjum Evrópusambandsins til aðstoðar standi þau frammi fyrir alvarlegum erfiðleikum. Aðildin að ESB væri sterk pólitísk yfirlýsing.

Frétt finnska ríkisútvarpsins YLE um málið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert