Obama neyðir varnarmálaráðherrann út

Chuck Hagel, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.
Chuck Hagel, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. AFP

Bandaríska blaðið The New York Times heldur því fram að Barack Obama forseti muni tilkynna síðar í dag að varnarmálaráðherrann Chuck Hagel muni stíga til hliðar. Ósigur demókrata í þingkosningum fyrr í mánuðinum er sögð ástæða þess að Obama hafi þrýst á ráðherrann að hætta.

Hagel er eini repúblíkaninn sem situr í þjóðaröryggisteymi forsetans. Heimildir blaðsins herma að Obama hafi beðið hann um að stíga til hliðar á föstudag en að viðræður um þetta hafi staðið yfir undanfarnar vikur. Hagel var fenginn inn til þess að hafa umsjón með liðsflutningum Bandaríkjahers frá Afganistan og að aðlaga hernaðarmál að minnkandi fjárframlögum á niðurskurðartímum. Nýjar ógnir sem hafi síðan sprottið upp eins og öfgasamtökin Íslamska ríkið hafi orðið þess valdandi að Obama vildi fá nýjan mann í starfið.

Með því að láta Hagel fara er Obama sagður reyna að friða þá sem hafa gagnrýnt viðbrögð hans við alþjóðlegum hættum á borð við ebólufaraldurinn og íslamska öfgamenn í Sýrlandi og Írak.

Frétt The New York Times um brotthvarf Hagel

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert