Rauðir pönduhúnar færa sig upp á skaftið

Það eru spennandi tímar hjá tveimur rauðum pönduhúnum sem fæddust í dýragarðinum í Bratislava í Slóvakíu fyrir fjórum mánuðum. Þau Pim og Pam, eins og þau eru kölluð, reiða sig enn á mjólk móður sinnar en undanfarið hafa þau fært sig upp á skaftið við að éta fasta fæðu, eins og ávexti, grænmeti og bambusstöngla.

Rauðar pöndur búa í Himalajafjöllunum í Indlandi, Nepal og Suður-Kína. Þær eru alætur en í náttúrunni éta þær aðallega ávexti, grænmeti og bambus auk lítilla dýra, skordýr og fuglaeggja. Pim og Pam eru afsprengi parsins Pung og Coco sem komu í dýragarðinn árið 2011. Þau eignuðust sinn fyrsta hún í fyrra en hann hlaut nafnið Aiko.

Eins og margar aðrar dýrategundir eru rauðar pöndur í hættu vegna þess að menn halda áfram að þrengja að búsvæðum þeirra og höggva skóga. Talið er að villtum dýrum af tegundinni hafi fækkað um allt að 40% á síðustu fimmtíu árum vegna skógarhöggs, minnkandi búsvæða og veiðiþjófnaðar, að því er kemur fram á vefsíðu dýragarðsins í Bratislava.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert