Skróp minnkar vegna sms skilaboða

Það getur verið erfitt að vakna á morgnana en sms …
Það getur verið erfitt að vakna á morgnana en sms til mömmu og pabba auðveldar málið. mbl.is/Rósa Braga

Skróp meðal nemenda í grunnskólum Stokkhólms hefur minnkað umtalsvert. Ástæðan er sú að nú fá foreldrar sms frá skólanum þegar barnið mætir ekki á réttum tíma. Þessu greinir Berlinske frá en í umfjöllun þeirra kemur fram að danskir skólar hafi jafnframt tekið upp þessa venju í auknum mæli og með nokkrum árangri.

Sé nemandi ekki mættur þegar bjallan hringir fær eitt af foreldrum viðkomandi smáskilaboð. Í hverri viku eru nemendur svo sendir heim með yfirlit yfir mætingu eða skort þar á sem foreldrar þurfa að skrifa undir og skila.

„Nemendur okkar voru með of margar óútskýrðar fjarvistir þegar við byrjuðum að senda foreldrum sms árið 2011. Á þremur mánuðum minnkuðu fjarvistirnar um 50%, svo aðferðin virkar í alvöru,“ segir Søren Kokholm, skólastjóri í Herfølge Skole í sveitarfélaginu Køge í Danmörku.

Í mörgum skólum Stokkhólms hefur skróp einnig minnkað um helming frá því að skólarnir byrjuðu að senda foreldrum skilaboð um skróp. Sem dæmi má nefna að skróp í Nytorpsskolen árið 2010 mældist 8,6% en í dag er það komið niður í 1,9%. Nemendur Blommensbergsskolen mældust með 5,9% óútskýrðar fjarvistir árið 2009 við upphaf verkefnisins en sú tala er einnig komin niður í 1,9%. Nemendur Akalla Grundskola hafa þó minnkað óútskýrðar fjarvistir sínar mest eða frá 9% í 2,1%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert