Telja að sýkta blóðið finnist ekki

AFP

Stjórnvöld í Gíneu telja ólíklegt að kælibox, sem innihélt blóðsýni sem sýkt var af ebólu-veirunni og var stolið var á leið á rannsóknarstofu, finnist nokkurn tímann. Hópur ræningja stöðvaði leigubíl skammt frá bænum Kissidougou í síðustu viku og hafði kæliboxið á brott með sér.

„Við erum sannfærð um að við munum ekki geta fundið kæliboxið. Við erum sannfærð um að ræningjarnir hafi losað sig við það vegna fjölmiðlaumfjöllunarinnar um málið,“ er haft eftir talsmanni viðbragðsteymis stjórnvalda vegna ebólufaraldursins í frétt AFP. Engu að síður hafa stjórnvöld í Gíneu hvatt ræningjana til þess að skila kæliboxinu.

Málið hefur orðið til þess að efasemdir hafa vaknað um að öryggismál þegar blóðsýni sýkt af ebólu eru flutt á milli staða í Gíneu en fram kemur í fréttinni að í flestum tilfellum sé notast við almenningssamgöngur til þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert