Byggingar loga í Ferguson

Mótmælendur í Ferguson hafa kveikt í byggingum, skotið á lögreglu og grýtt hana og farið ránshendi um verslanir í bænum eftir að kviðdómur ákvað að ákæra ekki lögreglumann sem skaut átján ára óvopnaðan pilt til bana. Pilturinn var svartur og hefur málið vakið mikla ólgu og spurningar um störf lögreglunnar. 

Lögreglan á erfitt með að hemja mótmælendur og óeirðir hafa blossað upp. Kveikt hefur verið í það minnsta tólf byggingum í bænum þar sem 21 þúsund manns búa, aðallega svartir. 

Lögreglustjórinn segir að minnsta kosti 150 skotum hafi verið skotið að lögreglu sem hafi ekki svarað fyrir sig í sömu mynt. 29 mótmælendur hafa verið handteknir. Einn lögreglumaður var skotinn í handlegginn en það var þó ekki í Ferguson heldur í öðru úthverfi St Louis. Mótmæli hafa farið fram í mörgum borgum Bandaríkjanna í dag. 

Ríkisstjóri Missouri hefur kallað til auka lögreglulið til að bregðast við óeirðunum í Ferguson. 

For­seti Banda­ríkj­anna, Barack Obama, og fjöl­skylda hins 18 ára gamla Michaels Brown, báðu fólk að halda ró sinni í kjöl­far ákvörðunar kviðdóms­ins sem var kunn­gerð um kl. 2 í nótt að ís­lensk­um tíma, átta í gær­kvöldi að staðar­tíma.

Kviðdóm­ur­inn komst að því að lög­reglumaður­inn hefði skotið Brown í sjálfs­vörn.

Sak­sókn­ari í St Lou­is, Robert McCulloch, sagði að lög­reglumaður­inn Dar­ren Wil­son hefði skotið 12 sinn­um eft­ir að hafa lent í „útistöðum“ við Brown. Því hefði kviðdóm­ur ekki séð neina ástæðu til að ákæra hann.

Um leið og sak­sókn­ar­inn hafði sagt frá niður­stöðunni brast móðir Browns í grát og hóp­ur fólks, sem komið hafði sam­an til að fylgj­ast með, hrópaði í sí­fellu: „hei, hei, hó, hó! Þess­ar dráps­lögg­ur verða að fara“ (e. Hey, hey, ho, ho! These killer cops have got to go).

 Í ág­úst stigu sjón­ar­vott­ar fram og sögðu að Brown hefði rétt upp hend­ur og hefði verið að gef­ast upp fyr­ir lög­reglu­mann­in­um er hann var skot­inn. En sak­sókn­ar­inn seg­ir að sönn­un­ar­gögn bendi til þess, sem og aðrir vitn­is­b­urðir, að það hafi ekki gerst. 

Fjöl­skylda Browns sendi frá sér yf­ir­lýs­ingu í nótt þar sem sagði: „Við höf­um orðið fyr­ir sárum von­brigðum að sá sem drap barnið okk­ar þurfi ekki að horf­ast í augu við af­leiðing­arn­ar. Við biðjum alla af ein­lægni að mót­mæla friðsam­lega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert