„Þú ert of mikil skræfa til að skjóta mig“

Lögregla og mótmælendur í Ferguson.
Lögregla og mótmælendur í Ferguson. AFP

Lögreglumaðurinn Darren Wilson, sem skaut óvopnaðan pilt til bana í Ferguson St Louis í Bandaríkjunum, heldur því fram að pilturinn hafi ögrað sér og sagt að hann væri of mikill heigull til að skjóta sig. Wilson skaut Michael Brown tólf skotum. Þetta kemur fram í útskrift úr lögregluyfirheyrslu yfir Wilson, daginn eftir atvikið. NBC greinir frá þessu. 

Gögn í málinu voru birt í nótt í kjölfar þess að kviðdómur komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til að ákæra lögreglumanninn. Hann hefði skotið Brown í sjálfsvörn. Í kjölfar þessarar ákvörðunar brutust út óeirðir í Ferguson. Kveikt hefur verið í byggingum og lögreglubíl, skotið hefur verið á lögreglu og hún grýtt. „Versta nótt í sögu Ferguson,“ hefur BBC eftir lögreglustjóranum í bænum.

Taldi sig í lífshættu

Sunnudaginn 10. ágúst, daginn eftir að atvikið átti sér stað, yfirheyrðu tveir lögreglumenn í Ferguson Wilson. Hann var spurður um hvað hann hefði verið að hugsa á meðan hann átti í samskiptum við Brown. Wilson svaraði: 

„Að hann myndi drepa mig. Hvernig ég myndi lifa þetta af, eiginlega.“

Síðar í yfirheyrslunni sagði Wilson að Brown hefði verið óviðráðanlegur og „ég finn ekkert betra orð en að hann hafi verið brjálaður. Ég hef aldrei séð svona. Ég meina, þetta var mjög ögrandi, ógnandi og óvinveitt. Þú veist, þú gast ekki, þú gast, þú gast séð að hann horfði bara í gegnum mann.“

Lýsing Wilsons í yfirheyrslunni er sambærileg við vitnisburð sem hann gaf kviðdómi í september. Þar sagði hann að Brown hafi verið svo stór að honum hefði liðið eins og „fimm ára gömlu barni að reyna að halda í Hulk Hogan,“ sagði hann m.a. og bætti við: „Svo stórum leið honum og svo smáum fannst mér ég vera bara við það að grípa um handlegg hans.“

Kviðdómur komst að því að þar sem Wilson hafi talið sér ógnað og litið svo á að hann væri í hættu, hefðu viðbrögð hans verið sjálfsvörn.

Tvær útgáfur sjónarvotta

Sjónarvottar lýsa atburðinum með misjöfnum hætti. Sumir segja að Brown hafi snúið sér við og rétt upp hendurnar en aðrir segja að hann hafi snúið sér við og nálgast lögreglumanninn. 

„Eins sorglegt og þetta er var þetta ekki glæpur,“ sagði saksóknarinn sem sagði frá niðurstöðu kviðdómsins í gærkvöldi. 

Wilson  lýsti málinu þannig við yfirheyrslur að hann hefði séð tvo svarta menn ganga á miðri götunni. Hann hafði farið í útkall vegna tilkynningar um að sígarettum hefði verið stolið í stórmarkaði í Ferguson.

„Ég sagði við þá: „Hei, strákar, af hverju gangið þið ekki á gangstéttinni,““ sagði Wilson við yfirheyrslurnar. „Sá fyrri svaraði: „Við erum alveg að koma á leiðarenda“. Ég sagði þá: „Allt í lagi en hvað er að gangstéttinni?“ Wilson sagði að annar þeirra hefði svarað honum fullum hálsi og spurt: „Hvað í andskotanum viltu segja?“

Wilson kallaði á þessum tímapunkti eftir aðstoð frá öðrum lögreglumönnum. Hann hafi síðan bakkað bíl sínum að mönnum og þá hafi allt farið úr böndunum.

Lögreglumaðurinn lýsti svo því sem á eftir fór með þessum hætti:

Hann reyndi að fara út úr bíl sínum en Brown skellti hurðinni. Glugginn var opinn og Brown reyndi að slá til hans. Hann hafi reynt að minnsta kosti þrisvar að fara inn í bílinn í gegnum gluggann. Brown tókst að slá Wilson tveimur höggum í andlitið með krepptum hnefa. 

Þegar Brown snéri sér svo við til að rétta félaga sínum sígarettur, sem hafði að mati Wilsons verið stolið úr stórmarkaðnum, hafi Wilson notað tækifærið og gripið um handlegg Browns. En Brown hafi verið of stór og sterkur svo hann réð ekki við hann.

„Ég var þegar fastur og vissi ekki hvað hann ætlaði að gera við mig en ég vissi að hann hefði ekkert gott í hyggju,“ sagði Wilson svo. Þar sem Brown hélt honum föstum gat hann ekki náð í Mace-úðann sinn. Hann var ekki með rafbyssu svo hann tók upp skammbyssu sína.

Wilson sagði að Brown hefði þá ögrað sér og sagt: „Þú ert of mikil skræfa til að skjóta mig.“ Í kjölfarið sagði lögreglumaðurinn að pilturinn hefði reynt að ná af sér byssunni og að hann hefði náð utan um byssuna er hún var í hönd hans. 

Wilson sagði að sér hefði svo tekist að beina byssunni að Brown og hefði hleypt af tvisvar en að „ekkert hafi gerst“ þar sem Brown hafði einnig fingur sinn við gikkinn svo að ekki var hægt að skjóta.

Í þriðja sinn sem Wilson skaut flugu glerbrot um allt og það var „blóð um alla hægri hönd mína,“ sagði Wilson. Hann sagði að Brown hefði virst bregða við þetta en hafi reynt að troða sér inn um gluggann og reynt að slá sig mörgum sinnum. „Ég meina brjálaður.“

Stakk höndinni ofan í buxnastrenginn

Wilson sagðist þá hafa í tvígang reynt að skjóta en ekkert gerðist. Þá hljóp Brown í burtu. Lögreglumaðurinn sagðist þá hafa farið út úr bílnum, kallað aftur eftir aðstoð, og elt svo Brown. Hann sagði að pilturinn hefði „stoppað, snúið við, horft á mig, stunið og var svo árásargjarn í framan að ég hef aldrei séð annað eins.“

Hann sagði að Brown hefði hlaupið til móts við sig og teygt hönd sína undir bolinn og ofan í buxnastrenginn og haldið henni þar. „Ég skaut mörgum skotum,“ sagði Wilson en sagði að Brown hefði ekki stoppað og haldið uppteknum hætti. Hann hefði skotið aftur og eitt eða fleiri skot „hæfðu hann í höfuðið og hann fór niður á staðnum.“

Wilson segist í kjölfarið hafa farið í talstöðina og beðið um alla þá aðstoð sem möguleg væri. 

Lögreglumenn gráir fyrir vopnum í Ferguson.
Lögreglumenn gráir fyrir vopnum í Ferguson. AFP
Mótmælendur í Ferguson.
Mótmælendur í Ferguson. AFP
Mótmæli í Ferguson.
Mótmæli í Ferguson. AFP
Alelda bíll í Ferguson.
Alelda bíll í Ferguson. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert