Birta upptöku af drápi drengs

Hinn tólf ára gamli Tamir Rice sem skotinn var til …
Hinn tólf ára gamli Tamir Rice sem skotinn var til bana af lögreglumanni í Cleveland á laugardag. AFP

Lögreglan í Cleveland í Bandaríkjunum hefur birt upptöku úr öryggismyndavél sem sýnir þegar tveir lögregluþjónar skutu tólf ára gamlan dreng til bana á laugardag. Lögreglumennirnir skutu drenginn aðeins nokkrum sekúndum eftir að þeir mættu á vettvang.

Timothy Loehmann, 26 ára, og Frank Garmback, 46, brugðust við tilkynningu til neyðarlínu um ungan svartan karlmann sem mundaði byssu í almenningsgarði. Loehmann skaut hinn tólf ára gamla Tamir Rice og lést drengurinn af sárum sínum á sunnudag. Hann reyndist hafa verið með loftbyssu. Lögreglumaðurinn skaut dreginn af um þriggja metra færi.

Fjölskylda drengsins og lögmenn hennar fengu að sjá upptökuna fyrr í vikunni og óskuðu í kjölfarið eftir því að hún yrði gerði opinber í heild sinni. Lögreglumaðurinn sem skaut dreginn hefur starfað hjá lögreglunni í Cleveland frá því í mars. Bæði hann og félagi hans eru í leyfi á meðan dauði drengsins er til rannsóknar.

Sögðu drenginn líta út fyrir að vera um tvítugt

Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar báru vitni að þau hefðu séð Tamir veifa byssu og beina henni að fólki í garðinum. Á blaðamannafundi lögreglunnar þar sem upptakan var birt var einnig spiluð hljóðupptaka af símtali sjónvarvotts til neyðarlínunnar. Hann sagði byssuna líklega ekki alvöru en treysti sér ekki til að skera úr um það. Sá sem veifaði henni væri líklega „unglingur“. Lögreglumennirnir tveir virðast hins vegar ekki hafa fengið þær upplýsingar að byssan væri mögulega ekki alvöru áður en þeir fóru á vettvang.

Edward Tomba, aðstoðarlögreglustjóri Cleveland, sagði á blaðamannafundinum að Loehmann hafi þrisvar sinnum kallað út um glugga úr farþegasæti lögreglubifreiðarinnar á Tamir að sýna hendurnar þegar hann nálgaðist bílinn. Loehmann skaut drenginn innan við tveimur sekúndum eftir að hann steig úr lögreglubílnum.

Upphaflega sagði lögreglan að annar lögreglumannanna tveggja hafi skotið tveimur skotum og að Tamir hafi seilst ofan í buxnastreng sinn þegar Loehmann skipaði honum að sýna hendurnar. Upptaka af talstöðvarsamskiptum lögreglumannanna við stjórnstöð eftir atburðina var einnig spiluð á blaðamannafundinum. Þar heyrðist annar þeirra segja að svartur karlmaður væri látinn og að hann væri „á að giska 20 ára gamall“.

Hér fyrir neðan má sjá upptökuna af því þegar lögreglumaðurinn skaut dreginn. Í upphafi myndskeiðsins situr hann á bekk undir skýli en þegar lögreglubíllinn nálgast gengur hann til móts við hann. Lögreglumaðurinn skýtur hann svo nær samstundis eftir að bíllinn stöðvast.

Frétt The Washington Post af upptökunni af drápinu á Tamir Rice

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert