Kveiktu í stúlku eftir að hún hafnaði þeim

Kynferðislegt ofbeldi gagnvart konum er daglegt brauð í Indlandi
Kynferðislegt ofbeldi gagnvart konum er daglegt brauð í Indlandi AFP

Indversk unglingsstúlka er látin rúmri viku eftir að hópur manna kveikti í henni í refsingarskyni fyrir að hún barðist á móti þegar þeir reyndu að áreita hana.

Lögreglan hefur handtekið fjóra í tengslum við árásina en ráðist var á stúlkuna, sem var fimmtán ára gömul, við heimili hennar í Uttar Pradesh-ríki hinn 16. nóvember sl. 

Fjölskylda stúlkunnar segir að sex menn hafi dregið hana inn í húsið þegar hún leyfði þeim ekki að snerta sig en þeir höfðu áreitt hana kynferðislega. Þegar inn var komið helltu þeir eldfimum vökva yfir hana og kveiktu í henni í refsingarskyni. Stúlkan var flutt á sjúkrahús en lést af völdum sára sinna á sunnudagskvöldið.

Mennirnir eru allir úr sama þorpi og stúlkan, Shahjahanpur, og úr sömu stétt og hún. Lögregla leitar þeirra tveggja sem enn eru ófundnir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert