Mammútur seldur á uppboði

Beinagrind af mammúti var seld á 189 þúsund pund á uppboði í bænum Billingshurst í Bretlandi í dag. Það samsvarar tæplega 37 milljónum króna. Fram kemur í frétt AFP að beinagrindin sé fimm og hálfur metri að lengd og samanstandi af yfir 150 beinum.

Beinagrindin var nýverið sett saman í tilefni af uppboðinu en hafði áður verið í geymslu áratugum saman ósamsett. Talið er að beinagrindin sé af karldýri sem hafi hugsanlega vegið allt að sex tonnum þegar það var á lífi fyrir um 50 þúsund árum síðan. Mammútar hafa verið útdauðir í um 10 þúsund ár. Kaupandinn var ónafngreindur breskur safnari sem bauð í beinagrindina símleiðis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert