Aðgerðarleysi kostaði barnið lífið

Finnska stúlkan Vilja Eerika Heleen Tarkki var átta ára er hún lést. Það voru faðir hennar og stjúpmóðir sem beittu hana ofbeldi mánuðum saman og drápu hana að lokum. Aðgerðarleysi opinberra starfsmanna er talið hafa kostað litlu stúlkuna lífið að lokum.

Fjallað er um mál Tarkki á vef Aftenposten en faðir hennar og stjúpmóðir voru dæmd í lífstíðarfangelsi fyrir morðið. Nú hafa ellefu opinberir starfsmenn, læknar, hjúkrunarfræðingar og starfsmenn barnaverndar, verið ákærðir fyrir aðgerðarleysi.

Höfundar skýrslu, sem unnin var fyrir dómsmálaráðherra Finnlands, Anna-Maja Henriksson, komast að þeirri niðurstöðu að ástæðan fyrir því að Eerika lést sé sú að enginn hafði yfirsýn yfir málefni hennar hjá hinu opinbera. Að minnsta kosti tíu ábendingar höfðu borist frá nágrönnum og skóla hennar um að hún væri beitt harðræð heima fyrir. 

Eins hafði móðir hennar ítrekað lýst yfir áhyggjum af stöðu mála á heimili stúlkunnar. Það var því ljóst að staða stúlkunnar var alvarleg en ekkert var að gerð. Enginn hafði yfirsýn yfir málið og því var ekki gripið inn. 

Samkvæmt frétt Aftenposten hafa þrír starfsmenn félagsmálayfirvalda sem og yfirmaður barnaverndar verið ákærðir fyrir vanrækslu í starfi. Tveir læknar og tveir hjúkrunarfræðingar á barnasjúkrahúsi í Helsinki hafa einnig verið ákærð. 

Bæði skólastjóri og kennarar stúlkunnar létu vita af áverkum hennar og eins höfðu starfsmenn félagsmálayfirvalda fengið upplýsingar um að litla stúlkan hafi verið látin hlaupa fram og til baka í garði fyrir utan heimili sitt og að hún hafi þurft að ganga langar vegalengdir í skóla í refsingarskyni. 

Eftir skilnað foreldranna fékk faðirinn forræðið yfir stúlkunni. Hann hóf síðar sambúð og bjuggu þau þrjú í tveggja herbergja, 33 fermetra, íbúð í Helsinki. 

Í fjóra mánuði var Eerika vistuð á fósturheimili en síðan send heim aftur þrátt fyrir mótmæli hennar. Það var síðan í maí 2012 að faðir hennar hafði samband við neyðarvaktina og tilkynnti að dóttir hans væri hætt að anda. Þegar sjúkralið kom á vettvang lá stúlkan látin í sófa í stofunni og lögregla var kölluð til.

Í ljós kom að á líkama hennar voru tæplega 90 áverkar og krufning leiddi í ljós að hún hafði verið kyrkt eftir að hafa verið bundin, vafin inn í dúk í sófanum. Ummerki voru um að hún hafi verið fjötruð og neydd til þess að borða auk annars ofbeldis.

Faðir hennar og stjúpmóðir viðurkenndu að hafa beitt hana ofbeldi en neituðu að hafa ætlað sér að drepa hana. Þau voru síðan í mars í fyrra dæmd í lífstíðarfangelsi fyrir morð, ofbeldi og vanrækslu. Málið er eitt það alvarlegasta sem upp hefur komið í Finnlandi hvað varðar ofbeldi gagnvart börnum á heimilum og mikil umræða sprottið í fjölmiðlum vegna þess. Á hverju ári deyja tíu börn í Finnlandi af völdum heimilisofbeldis og 300 börn hafa hlotið alvarlega áverka. 

Starfsmennirnir sem nú hafa verið ákærðir eiga yfir höfði sér nokkurra ára fangelsi verði þeir fundir sekir um vanrækslu í starfi. 

Ítarlega var fjallað um mál litlu stúlkunnar á síðasta ári í sænskum fjölmiðlum og má meðal annars lesa þessa frétt um málið hér og eins er hér að finna fjölmargar fréttir úr Helsingen Sanomat

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert