Aflýstu 700 flugferðum

Fólk bíður eftir upplýsingum á Penn lestarstöðinni í New York …
Fólk bíður eftir upplýsingum á Penn lestarstöðinni í New York í gær. AFP

Vetrarfærð í Bandaríkjunum hefur haft áhrif á ferðalög þúsunda síðustu daga, en þar er haldið upp á Þakkargjörðarhátíðina í dag sem gerir þessa viku og helgi að mesta ferðatímabili ársins í landinu. Fréttastofan CBS segir frá þessu.

Ástandið er sérstaklega slæmt í norðaustur hluta Bandaríkjanna þar sem rigning og snjór hefur sett strik í reikninginn. Ásamt því að trufla flugsamgöngur hefur veðrið jafnframt ollið töfum á helstu hraðbrautum á milli borganna Boston, New York og Washington D.C..

Snemma í gærkvöldi var búið að aflýsa 700 flugferðum aðallega í norðaustur hlutanum. Búist er við að enn fleiri flugum verði aflýst í dag.

Skólum og fyrirtækjum hefur verið lokað á sumum svæðum og ríkisstarfsmenn hafa í mörgum tilvikum fengið að fara fyrr heim á daginn. 

Pat Green og eiginmaður hennar keyrðu í gær frá Saugerties í New York til flugvallarins í Albany. Þau voru á leið til San Francisco. Í samtali við blaðamann CBS sagði hún að keyrslan á flugvöllinn hafi verið frekar erfið en þau  hefðu komist á flugvöllinn í einu lagi. 

„Það var svo mikil snjókoma að maður sá ekki bílinn fyrir framan okkur,“ sagði hún. „En við hægðum bara á okkur og vorum í lagi. Við tókum nægan tíma í þetta.“

Umfjöllun CBS í heild sinni má sjá hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert