„Flestir stjórnmálamenn eru ekki spilltir“

Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, í þinginu í dag.
Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, í þinginu í dag. AFP

Lýðflokkurinn spænski á í vök að verjast þessa dagana vegna spillingarmála sem tengjast flokknum. Mariano Rajoy, forsætisráðherra flokksins, segir flesta stjórnmálamenn engu að síður óspillta en spilling skaðaði lýðræðið og gerði lítið úr Spáni.

Ana Mato, heilbrigðisráðherra í ríkisstjórn Rajoy, sagði af sér embætti í gær eftir að dómstóll í Madríd komst að þeirri niðurstöðu að hún hefði fengið gjafir frá kaupsýslumönnum sem þannig reyndu að kaupa sér samninga við flokkinn. Mato var talin náinn bandamaður Rajoy.

Í spænska þinginu í dag sagðist Rajoy skilja reiði þjóðarinnar og að gripið yrði til „öflugra vopna“ til að taka á spillingu. Allir stjórnmálaflokkar yrðu að hlíta ströngum lögum um fjármögnun, gegnsæi og hagsmunaárekstra. Um er að ræða sömu tillögur og hann lagði fyrir í fyrra

„Ég læt mig óréttlæti miklu varða. Ég get fallist á að grunur um spillingu falli á alla spænska stjórnmálamenn," sagði forsætisráðherrann og viðurkenndi jafnframt að „vandamál“ hafi verið til staðar í flokki sínum.

Pedro Sánchez, leiðtogi sósíalista, sagði Rajoy hins vegar ekki færan um að taka á spillingu eftir niðurstöðu dómstólsins í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert